Lyfjastofnun efndi til
funda með hagsmunaaðilum í síðustu viku vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu
(Brexit) og hugsanlegra áhrifa hennar á það sem snýr að lyfjamálum. Annars
vegar var haldinn fundur með markaðsleyfishöfum og umboðsmönnum, hins vegar með
fulltrúum apóteka og heilbrigðisstofnana.
Brexit gengur í gildi kl. 23:00 þann 29. mars
Á fundunum var bent á að útganga
Breta er tímasett kl. 23:00 þann 29. mars næstkomandi. Fyrir þann
tíma þurfa markaðsleyfishafar og umboðsmenn að gera ráðstafanir til að
skrásetning lyfjafyrirtækja og ferla ýmis konar sem verið hafa í Bretlandi,
verði færð til einhvers af EES-ríkjunum; Bretland verður eftir útgönguna
skilgreint sem þriðja land í samningum hvað varðar framleiðslu á hráefnum og
innflutning á tilbúnum lyfjum. Að öðru leyti var nefnt að mikil óvissa ríkti um
framvinduna, enda enn óljóst hvort Bretland fer úr ESB með eða án samnings.
Fundarmenn voru hvattir til að búa sig undir „hart Brexit“, og gera þar með
ekki ráð fyrir aðlögunartíma til að breyta ferlum.
Glærur frá fundum með hagsmunaaðilum.
Kallað eftir upplýsingum frá markaðsleyfishöfum og
umboðsmönnum
Í framhaldi af fundunum voru
markaðleyfishöfum og umboðsmönnum send bréf þar sem kallað var eftir
upplýsingum um hver væri staða ferla er snúa að markaðsleyfi viðkomandi og bregðast
þurfi við vegna Brexit. Sömuleiðis hvort fyrirséð væru vandamál vegna útgöngu
Breta úr ESB. Óskað hefur verið eftir að Lyfjastofnun verði sendar upplýsingar
um stöðu hvers markaðsleyfishafa fyrir 6. febrúar nk. á netfangið [email protected],
þar á meðal hvort reikna megi með afskráningum lyfja hér á landi, og hvort gera
megi ráð fyrir lyfjaskorti af þessum sökum.
Þá skal bent á að birtar
hafa verið upplýsingar
á vef Lyfjastofnunar á formi spurninga og svara um það helsta sem snýr að
Brexit í tengslum við lyfjamál.