Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) fundaði í gær. Nefndin kom sér saman um hvernig lönd EES skyldu nota rannsóknarlyfið remdesivir í meðferðaráætlunum af mannúðarástæðum (compassionate use programmes) við COVID-19. Slíkum meðferðaráætlunum er ætlað að gefa læknum tækifæri á að veita mjög veikum sjúklingum meðferð með lyfjum sem enn eru í þróun þegar engar aðrar meðferðir koma til greina.
Haft er eftir formanni CHMP að klínískar rannsóknir séu gullinn staðall til að safna ítarlegum upplýsingum um öryggi og virkni rannsóknarlyfja. Aftur á móti skilji nefndin að þörf sé á samræmdri nálgun í notkun remdesivirs af mannúðarástæðum hjá þeim sjúklingum í Evrópu sem ekki er hægt að bjóða þátttöku í klínískum rannsóknum. CHMP mælist til þess að fyrirtækið sem framleiðir lyfið bjóði það á sanngjarnan og gagnsæjan hátt til þeirra landa sem vilja nota það í klínískum rannsóknum eða af mannúðarástæðum. Eftir stendur sú staðreynd að ekkert lyf hefur ennþá sýnt óyggjandi virkni hjá sjúklingum með COVID-19.
Sýnt hefur verið fram á virkni remdesivirs gegn veirunni sem nú herjar á heimsbyggðina (SARS-CoV-2) sem og öðrum kórónuveirum (t.d. SARS-CoV og MERS-CoV). Hins vegar er einungis um tilraunir á rannsóknarstofum að ræða og takmarkaðar upplýsingar til um notkun í sjúklingum með COVID-19.