Lyfjastofnun fylgir lögum og reglum um umhverfismál í starfsemi sinni. Allt starfsfólk hefur umhverfisstefnu þessa að leiðarljósi við störf sín. Stefnan er byggð á umhverfisstefnu stjórnarráðsins.
Umhverfis- og loftslagsstefnan og framkvæmd hennar er liður í daglegu starfi stofnunarinnar. Með því að draga úr álagi á umhverfið og vekja áhuga á innra umhverfisstarfi leggur Lyfjastofnun sitt af mörkum til betra samfélags. Stefnan tekur til allrar starfsemi stofnunarinnar, þ.m.t. matarsóunar, ræstinga, innkaupa, húsnæðis, vinnuumhverfis, samgangna, notkunar auðlinda og meðferðar á sorpi. Fylgt er stefnu ríkisstjórnar Íslands um vistvæn innkaup og rafræna stjórnsýslu.
Markmið
Að Lyfjastofnun dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri um 40% miðað við árið 2019. Stofnunin stefnir að því að ná þessu markmiði fyrir árið 2030.
Að hafa sjálfbæra þróun og vernd umhverfisins að leiðarljósi í öllu innra og ytra starfi.
Að úrbætur í rekstri og þjónustu taki mið af því að minnka umhverfisáhrif og losun gróðurhúsalofttegunda
Að halda auðlinda- og efnanotkun í lágmarki og draga úr mengun eins og kostur er.
Að vinna stöðugt að því að draga úr úrgangi og stuðla að endurnýtingu og endurvinnslu hans.
Að efla vistvænar samgöngur í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Aðföng
- Við innkaup skal tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Ef vörur eða þjónusta eru sambærilegar að öðru leyti ber að velja þann kost sem telst síður skaðlegur umhverfinu.
- Velja skal umhverfismerktar vörur í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup og nota rammasamning Fjársýslunnar.
- Lágmarka notkun einnota aðfanga, t.d. einnota borðbúnaðar og óþarfa umbúða.
Rekstur og viðhald
- Allur tölvu- og skrifstofubúnaður skal bera viðeigandi umhverfis- og orkusparandi merkingar.
- Upplýsa skal verktaka um stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum og gera kröfur um að þeir fylgi henni.
- Leigusali Lyfjastofnunar er Reitir fasteignafélag. Félagið hefur sett sér umhverfisstefnu og sjálfbærnistefnu sem gildir m.a. um húsnæði.
Nýting orkuauðlinda
- Fara skal sparlega með vatn og orkuauðlindir, t.d. láta vatn ekki renna að óþörfu, slökkva á rafmagnstækjum og ljósum í lok vinnudags og þegar ekki er nauðsynlegt að hafa kveikt á þeim.
Efnanotkun
- Fara sparlega með efni og efnavörur, t.d. við uppþvott og ræstingar.
- Allar ræstivörur sem notaðar eru skulu vera merktar með viðurkenndu umhverfismerki, t.d. Norræna svaninum, Evrópublóminu eða Bra Miljöval.
Endurnýting og meðferð úrgangs
- Flokka og ganga frá úrgangi samkvæmt flokkunarkerfi þjónustufyrirtækis.
- Stöðugt skal draga úr pappírsnotkun, m.a. með því að prenta báðum megin á blöðin og gæta þess að prenta hvorki né ljósrita að óþörfu.
- Stefna markvisst að því að málakerfi stofnunarinnar verði með öllu rafræn sem og skil til Þjóðskjalasafns.
- Stefna markvisst að því að allar leyfisveitingar og öll samskipti við þjónustuþega verði rafræn.
- Öllum spilliefnum skal fargað á viðeigandi hátt, t.d. lyfjum, rafhlöðum, prenthylkjum, ljósaperum.
- Öllum öðrum úrgangi skal fargað á viðeigandi hátt.
Samgöngur
- Leitast skal við að velja umhverfisvænar leiðir í samgöngum þegar ferðast er á vegum stofnunarinnar, t.d. óska eftir vistvænum bílum hjá leigubílastöðvum, bílaleigum, samnýta leigubíla, nota rafskutlur, hjóla og ganga styttri vegalengdir.
- Eftir því sem kostur er skal leitast við að fjarfundir komi í stað funda sem kalla á ferðalög innanlands jafnt sem utan.
- Bjóða starfsmönnum upp á samgöngusamning og hvetja til umhverfisvænna samgangna til og frá vinnu.
- Vinna samkvæmt fjarvinnustefnu stofnunarinnar.
Umhverfisvísar og fræðsla
- Stofnunin hefur yfirlit yfir helstu „grænu“ lykiltölur í rekstri og skráir og vaktar árangurinn. Markmið þess er að stuðla að betri nýtingu auðlinda, að draga úr sóun hráefna og auka endurnýtingu og endurvinnslu, eins og pappírsnotkun, orkunotkun, efnanotkun og magn sorps.
- Halda reglulega fræðslu um umhverfismál fyrir starfsfólk stofnunarinnar. Umhverfis- og loftslagsstefna Lyfjastofnunar er rýnd á hverju ári af framkvæmdaráði. Stefnan hefur verið kynnt starfsfólki stofnunarinnar, birt á innri og ytri vef þess, og samþykkt af framkvæmdastjórn.
Samþykkt í framkvæmdaráði 31.janúar 2025