Í reglugerð (ESB) 2016/161 er þeim sem afhenda almenningi lyf gert skylt að tengjast lyfjaauðkenniskerfinu og hafa þeir það hlutverk að sannprófa öryggisþættina og óvirkja einkvæma auðkennið á öllum lyfjum sem eru með öryggisþáttum, þegar þau eru afhent. Um þetta er fjallað í 25. gr. reglugerðarinnar. Í tilfelli heilbrigðisstofnanna (nefndar „heilbrigðisþjónustustofnanir“ í reglugerðinni) er heimilt að gera þetta hvenær sem henta þykir um leið og lyf er komið í vörslu stofnunar.
Heilbrigðisstofnanir þurfa að tengjast lyfjaauðkenniskerfinu. Nokkrar útfærslur eru í boði og þurfa heilbrigðisstofnanir að taka afstöðu til þess hvað þeim hentar. Lyfjaauðkenni ehf. (sem starfrækir íslenska lyfjaauðkenniskerfið) veitir allar nánari upplýsingar um hvernig heilbrigðisstofnanir skulu tengjast kerfinu.
Til frekari upplýsinga skal á það bent að stærri heilbrigðisstofnanir hér á landi, t.d. Landspítalinn stefna að því að framkvæma sannprófun öryggisþáttanna og óvirkjun einkvæma auðkennisins við móttöku lyfja í hús hjá sér.
(26.10.2018)