Bóluefni við COVID-19 eru lyf sem ætlað er að koma í veg fyrir COVID-19 sjúkdóm af völdum kórónuveirunnar SARS-CoV-2, með því að koma ónæmissvari af stað hjá þeim sem þau eru gefin.
COVID-19 heimsfaraldurinn er alþjóðlegt hættuástand sem hefur alvarlegar afleiðingar á líkamlega og andlega heilsu og efnahag. COVID-19 sjúkdómurinn getur verið mjög alvarlegur og langtímaáhrif hans eru óþekkt hjá fólki á öllum aldri, líka þeim einstaklingum sem voru við góða heilsu fyrir. Þá getur sjúkdómurinn dregið fólk til dauða.
Því er rík þörf á virkum og öruggum bóluefnum við COVID-19 til að koma í veg fyrir að fólk veikist, þá sérstaklega heilbrigðisstarfsfólk og viðkvæmir hópar, eins og eldra fólk og einstaklingar með langvinna eða undirliggjandi sjúkdóma.
Bóluefni með góða virkni ásamt ýmsum lýðheilsuaðgerðum og lyfjameðferðum munu vinna saman í baráttunni við faraldurinn.