Mönnun apóteka

Í lyfjabúð skulu að jafnaði vera ekki færri en tveir lyfjafræðingar að störfum á almennum afgreiðslutíma, við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Þetta gildir einnig um álagstíma utan almenns afgreiðslutíma.

Lyfjastofnun er heimilt, að fenginni umsókn þar um, að leyfa að í lyfjabúð starfi einungis einn lyfjafræðingur, enda sé umfang starfsemi lítið og þjálfað starfsfólk sé lyfjafræðingnum til aðstoðar.

Lyfjastofnun er jafnframt heimilt, að fenginni umsókn þar um, að veita tímabundið leyfi fyrir því að í lyfjabúð starfi aðeins einn lyfjafræðingur, enda sé hætta á því að starfræksla lyfjabúðar leggist að öðrum kosti niður á svæðinu.

Eftirlit með mönnunarkröfu

Lyfjastofnun hefur eftirlit með að lögbundin lágmarksmönnun í lyfjabúðum sé í samræmi við ákvæði lyfjalaga. Hafi ekki verið veitt undanþága frá lágmarksmönnun eða sé undanþága fallin úr gildi, ber að manna lyfjabúðina með eigi færri en tveimur lyfjafræðingum á almennum afgreiðslutíma, og á álagstíma utan almenns afgreiðslutíma.

Komi fram upplýsingar um að ekki sé farið eftir ákvæðum lyfjalaga um lágmarksmönnun í lyfjabúðum, getur Lyfjastofnun brugðist við í samræmi við heimildir sínar samkvæmt XVII. kafla lyfjalaga um eftirlit, og XIX. kafla sömu laga um þvingunarúrræði.

Umsóknir um undanþágu frá mönnunarkröfu

Sótt er um undanþágu frá mönnunarkröfu með rafrænu eyðublaði á Ísland.is. Hver umsókn er metin sjálfstætt.

Kostnaður

Telji Lyfjastofnun nauðsynlegt að fram fari úttekt vegna mats á umsókn, greiðir umsækjandi kostnað af úttektinni í samræmi við 1. mgr. 9. gr. núgildandi gjaldskrár. Í slíkum tilvikum er umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu sem Lyfjastofnun telur að sé nauðsynleg, áður en úttektin fer fram, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu gjaldskrár.

Einnig innheimtir stofnunin gjald fyrir útgáfu leyfis í tengslum við leyfisskylda starfsemi samkvæmt ákvæðum lyfjalaga, sbr. 8. gr. gjaldskrár. Gjald vegna útgáfu hvers leyfis er 15.700 kr. samkvæmt gjaldskrá.

Síðast uppfært: 25. október 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat