Siðareglurnar ná til alls starfsfólks Lyfjastofnunar. Siðareglurnar byggja á almennum siðareglum starfsmanna ríkisins, sem settar eru á grundvelli laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996. Þá byggja siðareglurnar jafnframt á ákvæðum lyfjalaga nr. 100/2020 og laga um dýralyf nr. 14/2022 þar sem m.a. kemur fram að hvorki forstjóri né aðrir starfsmenn Lyfjastofnunar mega eiga sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta í þróun, framleiðslu, markaðssetningu, innflutningi, miðlun, heildsölu eða smásölu lyfja. Þá taka siðareglurnar enn fremur mið af siðareglum starfsgreina, eftir því sem við á í hverju tilviki, og laga um vernd uppljóstrara nr. 40/2020. Frekari leiðsögn kann að felast í öðrum og sérhæfðari stefnum og verklagsreglum stofnunarinnar. Stjórnsýslulög nr. 37/1993 setja einnig ákveðnar kvaðir á starfsmenn um rétta breytni í starfi, s.s um hæfi starfsmanns til meðferðar máls, að gæta meðalhófs og að sjónarmið um jafnræði séu ætið höfð að leiðarljósi.
Siðareglurnar endurspegla gildi Lyfjastofnunar, sem eru Gæði, Traust, Þjónusta.
Hagsmunaárekstrar og gjafir
- Starfsfólk upplýsir a.m.k. árlega um hagsmunatengsl sem valdið geta hagsmunaárekstrum og sinnir ekki aukastörfum, trúnaðar- eða félagsstörfum sem ósamrýmanleg eru starfi þess hjá Lyfjastofnun.
- Starfsfólk sem hyggst, samhliða starfi sínu, taka að sér launað starf, ganga í stjórn atvinnufyrirtækis eða stofna til atvinnurekstrar upplýsir fyrirfram forstjóra um ætlan sína.
- Starfsfólk forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða tengdra aðila hins vegar og notfærir sér ekki stöðu sína eða upplýsingar fengnar í starfi í þágu eiginhagsmuna eða hagsmuna tengdra aðila.
- Starfsfólk gætir hófs í viðtöku gjafa og fylgir verklagi lyfjastofnunar um gjafir og boð til starfsmanna.
Kostnaðargát og umhverfisvitund
- Starfsfólk sýnir ráðdeild við meðferð fjármuna Lyfjastofnunar. Ekki er stofnað til útgjalda fyrir hönd Lyfjastofnunar nema tilefni þeirra samræmist starfsemi þess og hlutverki.
- Starfsfólk nýtir ekki opinbera fjármuni eða gæði starfsins í persónulegum tilgangi eða til þess að hygla öðrum.
- Starfsfólk gengur vel um náttúruna og tekur tillit til áhrifa á umhverfið og grænna skrefa hjá stofnuninni við innkaup og dagleg störf.
Háttsemi og framganga
- Starfsfólk vandar samskipti og kemur fram af háttvísi og virðingu og gætir þess að vera málefnalegt og sanngjarnt í umsögnum, endurgjöf og ummælum um aðra innan stofnunarinnar.
- Starfsfólk virðir trúnað gagnvart samstarfsfólki og vinnustað, svo sem við notkun samfélagsmiðla.
- Starfsfólk tileinkar sér vinnubrögð sem skapað geta traust á starfi þeirra og stofnun og virðir mannréttindi og mannlega reisn.
- Fagmennska, samvinna og gagnkvæm virðing einkenna starfsumhverfi Lyfjastofnunar.
- Starfsfólk viðurkennir mistök og leitast við að læra af þeim.
Faglegir starfshættir
- Starfsfólk hefur í heiðri lýðræðisleg gildi, gætir fyllstu fagmennsku og auðsýnir pólitískt hlutleysi.
- Starfsmaður skal kynna sér vel þau lög, reglur og viðmið sem eiga við starfsemi stofnunarinnar. Öll erindi skulu skráð skilmerkilega, og þeim erindum sem sannanlega eru utan verksviðs Lyfjastofnunar skal vísað á réttan stað.
- Starfsfólk vandar vinnubrögð og alla meðferð upplýsinga og gagna og gætir trúnaðar og persónuverndar.
- Starfsfólk byggir ráðgjöf sína og ákvarðanir á bestu fáanlegu upplýsingum. Faglegs mats sérfróðra aðila er aflað þegar við á.
- Starfsfólk leggur sig fram um að viðhalda og bæta þekkingu á sínu starfssviði.
- Þegar starfsfólk tekur ákvörðun, skal það gæta þess að samræmi sé í þeirri ákvörðun sem það tekur og því markmiði sem sóst er eftir og gæta meðalhófs sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Einkum skal forðast að takmarka rétt viðskiptavina þegar fyrirhugaðar aðgerðir eru ekki í skynsamlegum tengslum við tilgang aðgerðanna. Hafa ber í huga sanngjarnt jafnvægi milli hagsmuna einstaklinga og almennings.
Gagnsæi og upplýsingamiðlun
- Upplýsingar eru veittar greiðlega í samræmi við lög og almenn viðmið.
- Starfsfólk miðlar upplýsingum af nákvæmni, heilindum og með skýrum hætti.
- Mistök eða misskilningur, sem varðar ákvarðanir, meðferð mála, eða miðlun upplýsinga er leiðréttur eins fljótt og mögulegt er.
- Starfsfólk leitast við að eiga greið og opin samskipti við almenning og hagaðila.
Ábyrgð og eftirfylgni
- Hver starfsmaður, í samræmi við stöðu sína og hlutverk, er ábyrgur fyrir athöfnum sínum og gjörðum og gætir að því fyrir sitt leiti að farið sé eftir þessum siðareglum.
- Stjórnendur skulu sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðililegur þáttur í starfi Lyfjastofnunar, bregðast við sé ekki farið eftir þeim og ganga á undan með góðu fordæmi.
- Í vafatilfellum sem upp geta komið geta starfsmenn ávallt leitað til næsta yfirmanns, sviðsstjóra, mannauðsstjóra eða forstjóra ef við á, og leitað ráðgjafar eða álits.
- Verði starfsfólk áskynja um siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi á vinnustað skal það koma ábendingu þar um til næsta yfirmanns, sviðsstjóra, mannauðsstjóra eða forstjóra eftir því sem við á og skal forðast að sá aðili eigi hlut í máli.
- Starfsfólk geldur ekki fyrir ábendingar um brot á siðareglum, lögum eða reglugerðum eða fyrir að leita réttar síns telji það á sér brotið.
Siðareglur þessar voru samþykktar af framkvæmdaráði Lyfjastofnunar þann 4. mars 2025.