Beiðnir um viðbótarupplýsingar (e. Follow-up) skal sérsníða til að hámarka möguleikana á að fá þær upplýsingar sem vantar og eru álitnar mikilvægar fyrir mat á tilkynningu. Þetta ætti ávallt að vera gert með leiðum sem hvetja tilkynnanda til að senda inn nýjar upplýsingar sem eru mikilvægar til þess að hægt sé að leggja heildrænt mat á einkennin og tilkynninguna.
Forðast skal að biðja tilkynnanda um að endurtaka upplýsingar sem eru til staðar í upphaflegu tilkynningunni. Ef markaðsleyfishafi er með staðlaða spurningalista fyrir viðbótarupplýsingar (e. Follow-up form), skal markaðsleyfishafi einungis áframsenda þær spurningar sem leitast er svara við til Lyfjastofnunar. Markaðsleyfishafa ber að fjarlægja allar spurningar sem búið er að fá svör við af slíkum spurningalistum.
Lyfjastofnun veitir þriðja aðila ekki upplýsingar um tilkynnendur og því þarf að senda spurningalista á stofnunina sem kemur þeim áfram á tilkynnanda.
Hafa skal í huga hvort að tilkynningin komi frá neytanda eða heilbrigðisstarfsmanni m.t.t. hvernig spurningarnar eru settar fram og eftir hvaða upplýsingum er leitað. Spurningar til neytenda og aðstandenda þeirra ættu ávallt að vera á íslensku.
Sértækir spurningalistar (e. specific adverse reaction follow-up questionnaires)
Ef markaðsleyfishafi eða umboðsmaður leitast eftir viðbótarupplýsingum byggðum á sértækum spurningalistum samkvæmt skilyrðum í áætlun um áhættustjórnun (e. risk management plan) getur Lyfjastofnun komið þeim spurningum áfram til tilkynnanda.
Mikilvægt er að markaðsleyfishafi undirbúi listann sem skal áframsenda svo að ekki séu spurningar sem þegar hefur verið svarað eða eru til staðar í tilkynningunni. Einungis skal senda spurningar til Lyfjastofnunar sem eiga erindi áfram til tilkynnanda.
Lyfjastofnun gerir þá kröfu að markaðsleyfishafi framkvæmi klínískt mat á því hvort tilkynnt einkenni samræmist tilgangi spurningalistans.
Ef verið er að leitast eftir viðbótarupplýsingum frá heilbrigðisstarfsmanni er heimilt að senda spurningalista á ensku en séu tilkynningar frá neytendum eða aðstandendum þeirra þarf að þýða spurningar á íslensku svo Lyfjastofnun geti komið þeim áleiðis.
Ef að nýjar upplýsingar berast mun markaðsleyfishafi geta nálgast þær í gegnum Eudravigilance þar sem Lyfjastofnun mun uppfæra tilkynninguna með viðbótarupplýsingunum innan leyfilegs tímaramma frá móttöku.