Bóluefni sem hafa hlotið markaðsleyfi á Íslandi
Bóluefni sem eru í umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu
Bóluefni sem eru í flýtimati (áfangamati) hjá Lyfjastofnun Evrópu
Virkni bóluefna
Virkni allra bóluefna byggist á því að þau ræsa ónæmiskerfið þannig að það nái síðar meir að verja líkamann gegn ákveðnum sjúkdómi með því að þekkja þá sýklana sem honum valda.
Flestar rannsóknir á bóluefnum gegn COVID-19 hafa það að markmiði að líkaminn nái að mynda mótefnasvar við próteini sem er einstakt fyrir veiruna sem veldur sjúkdómnum (gaddaprótein (e. spike protein), eða hluta þess. Hjá þeim sem eru bólusettir og komast í návígi við veiruna bregst ónæmiskerfið því strax við og kemur í veg fyrir sýkingu eða veikindi.
Sömu ríku kröfur gerðar til bóluefna gegn COVID-19 og annarra lyfja
Um bóluefni gegn COVID-19 gilda sömu lagalegu kröfur og um önnur lyf hvað varðar gæði, öryggi og virkni þeirra. Það sem er óvenjulegt í tilviki bóluefna gegn COVID-19 bóluefna er hraðinn við þróun þeirra og matsferli Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Þessi flýtimeðferð er til komin vegna verulegrar ógnar faraldursins við lýðheilsu.
Sérstakur COVID-19 starfshópur hefur verið settur á laggirnar, og sinna sérfræðingar í þeim hópi öflugri ráðgjöf til fyrirtækja sem vinna að þróun lyfja og bóluefna gegn sjúkdómnum, á hvaða stigi málsins sem er. Nú þegar hefur ráðgjöf verið veitt vegna fjölda lyfja sem eru eða hafa verið í þróun. Ráðgjöf þessi getur bæði verið óformleg ráðgjöf eða þá formleg vísindaráðgjöf. Sérfræðingar Lyfjastofnunar koma að því að veita umrædda ráðgjöf með aðkomu að vísindastarfi EMA.
Matsferli fyrir bóluefni gegn COVID-19
Til að yfirvöld geti metið bóluefni þurfa lyfjafyrirtæki að senda niðurstöður ítarlegra rannsókna. Þættir sem liggja til grundvallar eru:
- Virkni: Að bóluefnið veiti vernd gegn sjúkdómnum.
- Öryggi: Hvaða aukaverkunum veldur bóluefnið?
- Gæði: Að bóluefnið sé framleitt samkvæmt gildandi stöðlum.
Staðlað og margreynt verklag er notað til að meta virkni og öryggi bóluefna COVID-19 í rannsóknum, og þurfa lyfin að fara í gegnum heilmikið rannsóknarferli.
1. Forklínískar rannsóknir:
Áður en hægt er að prófa tiltekið bóluefni hjá mönnum þarf að gera forklínískar rannsóknir á því. Hér er um að ræða rannsóknir í tilraunaglösum, vefjaræktun og í dýrum. Til athugunar eru bæði virkni og hugsanlegar aukaverkanir bóluefnisins.
2. Klínískar rannsóknir í þremur stigum (fösum):
1. stigs rannsóknir: Fyrstu skammtar bóluefnis eru yfirleitt gefnir nokkrum tugum sjálfboðaliða til að staðfesta að bóluefnið virki eins og forklínískar rannsóknir gefa tilefni til að ætla. Niðurstöður þessa rannsóknarstigs geta veitt upplýsingar um:
- hvort bóluefnið stuðli að væntu ónæmissvari,
- hvort öryggi sé nægilegt og þar með sé óhætt að framkvæma frekari rannsóknir
- hvaða skammtar kynnu að reynast vel
2. stigs rannsóknir: Nokkur hundruð sjálfboðaliðar fá bóluefnið. Hér er helst horft til að finna ákjósanlega skammta, greina helstu aukaverkanir og hversu marga skammta þurfi að gefa. Einnig er athugað hvort ónæmissvar eigi sér stað hjá fjölbreyttari hópi einstaklinga og stundum geta 2. stigs rannsóknir gefið grófa mynd af því hversu virkt bóluefnið er.
3. stigs rannsóknir: Hér er um að ræða stórar rannsóknir þar sem fjöldi sjálfboðaliða hleypur á þúsundum. Á þessu stigi er sérstaklega metið hversu mikla vernd bóluefnið veitir í samanburði við lyfleysu eða aðra meðferð. Algengir mælikvarðar til að meta virkni bóluefna eru:
- fjöldi einstaklinga sem sýkist
- fjöldi einstaklinga sem fær einkenni
- fjöldi einstaklinga sem fær alvarlegan sjúkdóm
3. stigs rannsóknum er vel fylgst með öryggi bóluefnanna og þar koma hugsanlega fram sjaldgæfari aukaverkanir en í 2. stigs rannsóknum.
Frá þróun til framleiðslu bóluefnis þarf að fylgja ótalmörgum gæðaferlum svo hægt sé að sannreyna gæði bóluefnsins. Þetta felur meðal annars í sér upplýsingar um hreinleika bóluefnisins, innihald og geymsluþol, ásamt upplýsingum um við hvaða aðstæður það er framleitt.
COVID-19 er heimsfaraldur sem hefur haft gríðarleg áhrif um heim allan. Undir slíkum kringumstæðum er mikilvægt að fram komi bóluefni eins fljótt og auðið er. Í matsferlinu bóluefnanna er ávinningur af notkun þeirra ávallt metinn í samanburði við áhættuna sem henni fylgir.
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) notar öll þau úrræði sem stofnunin hefur yfir að ráða til þess að flýta matsferlinu án þess þó að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til lyfja almennt.
- Áfangamat – (Rolling review) EMA getur beitt áfangamati (e. rolling review) til að flýta fyrir matsferli vænlegra lyfja eða bóluefna í víðtækri heilsuvá. Alla jafna þurfa lyfjafyrirtæki að senda inn öll gögn um virkni, öryggi og gæði lyfja áður en mat hefst, en í áfangamati eru gögnin metin eftir því sem þau verða tiltæk.
- Flýtimat (e. accelerated assessment) Hér er mati EMA á umsókn um markaðsleyfi lyfs flýtt og tímaramminn sem EMA hefur til þess að meta umsókn um markaðsleyfi styttur úr 210 dögum niður í 150 daga. Einungis lyf sem er búist við að skipti sköpum fyrir almenning geta farið í slíkt ferli.
EMA getur mælt með útgáfu markaðsleyfa bóluefnis eftir að hafa metið ávinning af notkun þess til samanburðar við áhættuna af henni á grundvelli klínískra rannsókna. Markaðsleyfi er einungis veitt ef ávinningurinn er metinn meiri en áhættan.
Skilyrt markaðsleyfi í Evrópu
Á EES-svæðinu er mögulegt að veita lyfjum skilyrt markaðsleyfi þegar önnur úrræði koma ekki að gagni til að leysa bráðan heilbrigðisvanda. Undir slíkum kringumstæðum liggur fyrir minna magn rannsóknargagna um lyfin en þegar um hefðbundin markaðsleyfi er að ræða, en umsækjanda er gert að skila frekari gögnum síðar.
Skilyrt markaðsleyfi er þannig veitt ef ávinningur af því að lyf eða bóluefni sé aðgengilegt sem fyrst er meiri en áhættan af því að einhver gögn um viðkomandi lyf séu ekki enn tiltæk. Útgáfu skilyrtra markaðsleyfa er beitt í COVID-19 faraldrinum til að bregðast eins fljótt og mögulegt er við þeirru heilsuógn sem af honum stafar. Hins vegar þurfa fyrirliggjandi gögn að sýna svart á hvítu að ávinningur lyfjanna/bóluefnanna sé meiri en áhættan af notkun þeirra. Þegar skilyrt markaðsleyfi hafa verið veitt þurfa lyfjafyrirtæki að senda inn viðbótargögn úr rannsóknum innan fyrirfram skilgreindra tímamarka. Gögnin eru ýmist niðurstöður nýrra rannsókna eða rannsókna sem eru í gangi þegar skilyrtu markaðsleyfin eru veitt. Mat á hugsanlegum aukaverkunum liggja einnig til grundvallar. Þessi gögn þurfa að staðfesta að ávinningur lyfjanna sé meiri en áhættan af notkun þeirra.
Skilyrt markaðsleyfi er einungis veitt eitt ár í senn. Þegar EMA hefur móttekið öll þau gögn frá markaðsleyfishafa sem krafist er getur skilyrta markaðsleyfið breyst í fullt markaðsleyfi. Á tímabilinu 2006-2016 fengu 30 lyf skilyrt markaðsleyfi og einungis eitt þeirra var dregið til baka. Öll hin lyfin fengu fullt markaðsleyfi þegar skilyrðum hafði verið fullnægt.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandins gefur út markaðsleyfi fyrir lyf í Evrópu eftir umsögn frá EMA og gilda þessi markaðsleyfi í Evrópusambandinu og á EES svæðinu. Lyfjastofnun tekur virkan þátt í samstarfi landa Evrópu og sérfræðingar stofnunarinnar eru þátttakendur í sérfræðinefndum EMA. Lyfjastofnun mun fylgjast náið með bólusetningunum hér á landi og meta þær aukaverkanatilkynningar sem berast og senda þær áfram til Lyfjastofnunar Evrópu.
Þegar klínískar lyfjarannsóknir eru framkvæmdar tekur þátt takmarkaður fjöldi sjálfboðaliða í stuttan tíma við stýrðar aðstæður. Þegar bóluefni er tekið í almenna notkun margfaldast fjöldi notenda auk þess sem samsetning hópsins verður fjölbreyttari. Ólíkir einstaklingar, sumir hverjir með undirliggjandi sjúkdóma og á öðrum lyfjum, munu þá fá bóluefnið. Því er mögulegt að þeir upplifi aukaverkanir sem ekki hafa komið fram í þeim klínísku lyfjarannsóknum sem gerðar voru. Þrátt fyrir að alvarlegar aukaverkanir af völdum bóluefna séu sjaldgæfar er sá möguleiki fyrir hendi engu að síður, og því afar mikilvægt að fylgst sé vel með í upphafi bólusetninga. Það eftirlit haldi síðan áfram meðan bóluefnið er í notkun.
Til að upplýsingar um aukaverkanir komi fram svo fljótt sem sem verða má, er mikilvægt að bæði sjúklingar og heilbrigðisstarfsfólk tilkynni hugsanlegar aukaverkanir. Slíkar tilkynningar eru forsenda þess að upplýsingar um sjaldgæfar, óvæntar og alvarlegar aukaverkanir skili sér til þeirra sem fjalla um öryggi lyfja og hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana sé þörf á slíku.