Í sumum löndum er skráð hvaða lyf konur fá á meðgöngu og þannig safnast smám saman upplýsingar um hættuna sem fylgir hverju lyfi. Um 30 lyf hafa þekkta skaðlega verkun á fóstur eða liggja sterklega undir grun. Í þessum flokki eru mörg krabbameinslyf, flest flogaveikilyf, sum blóðþrýstingslækkandi lyf, sum verkjalyf , sum þunglyndislyf og nokkur fleiri.
Sagan
Fram til 1940-50 var almennt talið að fylgjan verði fóstrið fyrir framandi (utanaðkomandi) efnum. Upp úr 1940 fóru margir að efast um þetta og 1941 komu fram sterkar vísbendingar um að framandi efnasambönd og veirur (rauðu-hunda veiran) getu haft skaðleg áhrif á fóstrið. Árið 1961 var sýnt fram á að lyfið talidómíð hefði valdið alvarlegum vansköpunum í þúsundum mannafóstra og 1970 var sýnt fram á að lyfið díetýlstilböstról (DES) gæti valdið krabbameini hjá stúlkubörnum sem urðu fyrir áhrifum lyfsins á fósturskeiði. Upp úr 1970 var sýnt endanlega fram á að áfengi getur valdið vansköpunum og síðan þá hefur komið í ljós að sama gildir um mörg lyf og náttúruefni (fæðubótarefni).
Dýratilraunir
Í hálfa öld hafa öll ný lyf verið rannsökuð m.t.t. hugsanlegra skaðlegra áhrifa á fóstur en fyrir þann tíma var lítið gert af slíkum rannsóknum. Sumar þessara rannsókna eru gerðar á ræktuðum frumum en aðrar verður að gera á dýrum og eru rottur mest notaðar. Í þessum rannsóknum eru könnuð áhrif viðkomandi lyfs á kjarnsýrur (erfðaefnið), frjósemi, fóstur og barnið um og strax eftir fæðingu. Í rannsóknum af þessu tagi er áberandi munur í næmi milli tegunda, bæði eru tilraunadýr misnæm (rottur, mýs, kanínur) og mannafóstur eru stundum næmari og stundum minna næm en dýrafóstur. Dýratilraunir geta því aðeins gefið vísbendingar um hættuna. Hormónið kortisón veldur vansköpunum í músum en ekki mönnum. Talidómíð hefur mikla tilhneigingu til að valda vansköpunum í mönnum en miklu síður í dýrum. Stundum er hættan álíka mikil í mönnum og dýrum og gildir það um A-vítamín og skyld efni. Ekki er hægt að gera rannsóknir á áhrifum lyfja á mannafóstur nema með óbeinum aðferðum. Í sumum löndum er vandlega skráð hvað lyf (og fæðubótarefni) konur eru að taka á meðgöngu og þannig safnast smám saman upplýsingar um hættuna sem fylgir hverju lyfi.
Hvers konar fósturskemmdir?
Það sem eðlilega vekur mesta athygli eru vanskapanir en ýmislegt annað getur átt sér stað. Aðrar þekktar eiturverkanir sem koma fram í fóstri eða barni eru fósturdauði, vanþroski fósturs, van- eða ofþroski einstakra líffæra, óeðlileg líkamsstarfsemi hjá nýbura, illkynja sjúkdómur hjá barni og röskun á andlegu atgervi barns.
Hvenær er hættan mest?
Venjulega er miðað við tímann frá getnaði og þá er hættan á vansköpunum sáralítil fyrstu 2 vikurnar. Í 3.-8. viku eru líffærin að mótast og taka á sig sína endanlegu mynd og á þessu tæplega tveggja mánaða tímabili er hættan á vansköpunum þess vegna mest. Oft er talað um fyrsta þriðjung meðgöngu í þessu samhengi en það eru fyrstu 3 mánuðirnir eða fyrstu 13 vikurnar. Síðar á meðgöngunni geta annars konar skaðleg áhrif komið fram.
Hversu algengar eru fósturskemmdir?
Talið er að um meiri háttar vansköpun sé að ræða í 2-3% fæðinga. Meiri háttar vansköpun er eitthvað sem er áberandi og/eða krefst skurðaðgerðar. Minni háttar vanskapanir eru mun algengari en þær er erfitt að skilgreina. Áætlað hefur verið að vanskapanir vegna lyfja séu nálægt 1-2% allra vanskapana en flestar (98-99%) séu af óþekktum ástæðum. Við ráðgjöf vegna lyfjanotkunar á meðgöngu er nauðsynlegt að taka tillit til grunnáhættunnar sem alltaf er til staðar og þeirrar hugsanlegu aukningar á áhættu sem notkun viðkomandi lyfs hefur í för með sér.
Hvaða lyf valda fósturskemmdum og hversu mikil er hættan?
Um 30 lyf hafa þekkta skaðlega verkun á fóstur eða liggja sterklega undir grun. Í þessum flokki eru mörg krabbameinslyf, flest flogaveikilyf, sum blóðþrýstingslækkandi lyf, sum verkjalyf , sum þunglyndislyf og nokkur fleiri. Tvenns konar lyf eru í sérflokki hvað hættuna varðar en það eru talidómíð og A-vítamín ásamt skyldum efnum (Avítamínafleiðum, t.d. ísótretinóíni). Ef þessi lyf eru tekin í 3.-8. viku meðgöngu er hættan á vansköpun 20-30% en fyrir önnur lyf með staðfesta vanskapandi verkun er hættan mun minni eða aðeins 1-5%. Einnig skipta skammtar máli og þegar nauðsynlegt er að nota lyf á meðgöngu skiptir máli að halda skömmtum eins lágum og mögulegt er.
Hafa konur eitthvað val?
Stundum er ómeðhöndlaður sjúkdómur móðurinnar hættulegri fyrir fóstrið en lyfin sem notuð eru við sjúkdómnum; þetta á t.d. við um flogaveiki og meðgönguógleði með miklum uppköstum. Stundum er hægt að velja lyf sem talið er hættuminna en önnur. Fæðubótarefni (náttúruefni) eru sjaldan vænlegur kostur í stað lyfja vegna þess að oftast er minna vitað um hugsanleg áhrif fæðubótarefna en lyfja á fóstrið. Þar að auki er vitað um skaðleg áhrif margra fæðubótarefna á fóstur.
Flokkun lyfja eftir áhættu
Lengi hefur tíðkast að flokka lyf eftir áhættu fyrir fóstrið, samkvæmt bestu heimildum hverju sinni. Sú flokkun sem mest er notuð byggir á sænsku kerfi þar sem lyf eru sett í fjóra mismunandi flokka, A, B, C eða D, eftir því hve áhættan er mikil. A: áhættan er talin lítil sem engin, sem byggist á upplýsingum frá mönnum og dýrum. B: áhættan ekki þekkt vegna takmarkaðrar notkunar á meðgöngu en hvorki vísbendingar um fósturskemmdir í mönnum né dýrum. C: vegna verkunar sinnar er talin hætta á skaðlegum áhrifum á fóstur en engar upplýsingar liggja fyrir um vanskapandi áhrif. D: talið er öruggt að lyfið geti valdið vansköpunum eða öðrum alvarlegum fósturskemmdum. Í íslensku Sérlyfjaskránni og fylgiseðlum með lyfjum eru ekki notaðir þessir bókstafir en í stað þeirra koma meira eða minna staðlaðir textar sem lýsa áhættunni.
Lyf og brjóstagjöf
Brjóstamjólk er af mörgum ástæðum besta næringin fyrir barnið fyrstu mánuði ævinnar. Þetta verður að hafa í huga þegar teknar eru ákvarðanir um lyfjatöku móður og brjóstagjöf. Einnig verður að hafa í huga að sum lyf verka á ungabörn á annan hátt en á eldri börn og fullorðna. Sum lyf skiljast út í brjóstamjólk en önnur ekki og stundum er ekki vitað hvort lyf séu til staðar í brjóstamjólk og í hve miklu magni. Stundum er hægt að tímasetja lyfjatöku móður þannig að sem minnst magn berist í barnið. Stundum er hægt að velja annað lyf með sambærilega verkun, sem ekki skilst út í móðurmjólk. Út frá öllu þessu eru lyf oft flokkuð í fjóra flokka og viðeigandi staðlaðir textar notaðir:
I: Lyfið skilst ekki út með móðurmjólk.
II: Lyfið skilst út með móðurmjólk en hætta fyrir barnið er talin óveruleg miðað við venjulega skammta.
III: Lyfið skilst út með móðurmjólk í magni sem talið er skapa hættu fyrir barnið, þó það sé tekið í venjulegum skömmtum.
IV: Upplýsingar um útskilnað lyfsins í móðurmjólk vantar eða eru það ófullkomnar að ekki er unnt að meta hugsanlega
hættu fyrir barnið