Verkefni um rafræna fylgiseðla – auknir möguleikar lyfjafyrirtækja til þátttöku

Ár er nú liðið frá því að verkefninu var hleypt af stokkunum. Opnað hefur verið fyrir umsóknir lyfja sem voru á markaði áður en verkefnið hófst að nýju.

Þann fyrsta mars sl. var ár liðið frá því að tilraunaverkefni um rafræna fylgiseðla hófst. Af því tilefni var rammi verkefnisins endurskoðaður og ákveðið í samráði við heilbrigðisráðuneytið að opna verkefnið aftur fyrir lyf sem voru á markaði áður en verkefnið hófst. Öll H-merkt lyf, sem gefin eru af heilbrigðisstarfsfólki á sjúkrastofnunum, eru því gjaldgeng í verkefnið að undangenginni umsókn til Lyfjastofnunar.

Verkefnið nær yfir alls þrjú ár. Tekið verður við umsóknum fyrir markaðssett lyf þann tíma sem verkefnið stendur yfir. Umsókn um þátttöku í verkefninu skal send á netfangið [email protected].


Mat verkefnisins

Könnun var lögð fyrir hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsfólk við upphaf verkefnisins. Næst verður lögð könnun fyrir heilbrigðisstarfsfók um miðbik verkefnisins og svo við lok þess. Í könnuninni verður aðgengi að rafrænum fylgiseðlum metið, sem og notkun og lestur þeirra.

Til stóð að gera könnun meðal allra þeirra lyfjafyrirtækja sem taka þátt í verkefninu, bæði um miðbik og við lok þess. Nú hefur hins vegar verið tekin sú ákvörðun að eingöngu verður lögð könnun fyrir þau fyrirtæki sem fengu inngöngu fyrir lyf í verkefnið á fyrsta ári þess eða á tímabilinu 1. mars 2021 til 1. mars 2022. Þar verður lagt mat á annmarka sem upp kunna að koma og tengjast því að prentaður fylgiseðill fylgir ekki lyfi.

Sérstök síða er tileinkuð verkefninu á vef Lyfjastofnunar.

Síðast uppfært: 8. mars 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat