Starfsfólk Lyfjastofnunar fór til Hollands í síðasta mánuði í þeim tilgangi að heimsækja systurstofnanir og fræðast um starfsemi þeirra. Heimsóttar voru Lyfjastofnun Evrópu (EMA), lyfjaskráningarstofnun Hollands (MEB), heilbrigðisráðuneytið í Hollandi og lyfjafræðideild háskólans í Utrecht.
Heimsóknir miðuðust við verksvið hvers starfsmannahóps þannig að hægt yrði að kynnast verklagi þeirra hollensku kollega sem sinna sambærilegum störfum. Þannig hittu sérfræðingar í lyfjagátarteymi samsvarandi teymi ytra, eftirlitssvið fékk fræðslu um umgjörð í rekstri hollenskra apóteka, og þeir sem heimsóttu EMA kynntust starfi sérfræðinganefnda stofnunarinnar og fyrirkomulagi samskiptamála. Þá var einnig mikilvægt að afla tengiliða hjá hollensku stofnununum. Tilgangurinn var enn fremur að efla starfsandann sem tókst með miklum ágætum. Ferðin þótti í heildina heppnast vel og almenn ánægja meðal starfsfólks. Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar er á sama máli.
Ferðin heppnaðist vel og gagnlegt og ánægjulegt var fyrir starfsfólk Lyfjastofnunar að fá tækifæri til að hitta kollega sína í Hollandi hjá hinum ýmsu stofnunum og í ráðuneytinu. Sérstaklega ánægjulegt var að geta farið í höfuðstöðvar EMA þar sem fá tækifæri hafa gefist til þess undanfarið, en flutningurinn í nýtt húsnæði þeirra í Amsterdam var nánast korter í heimsfaraldur. Almennt var mikil ánægja meðal starfsfólks. Þessi ferð mun styrkja samband okkar við Holland enn frekar.
Þess má síðan geta að hluti starfsmannahópsins var heima meðan á ferðinni stóð og sinnti föstum störfum sínum og tilfallandi erindum sem bárust til Lyfjastofnunar þessa tvo daga. Allt gekk það með miklum sóma og þau verk sem ekki máttu bíða voru leyst án hnökra eða vandkvæða.