Á vef Lyfjastofnunar er sérstakur kafli þar sem fjallað er um lyfjaskort, með margs konar upplýsingum, tillögum að úrræðum sem nýst gætu meðan skortur varir, og nýjustu fréttum um stöðu mála. Hjá Lyfjastofnun er stöðugt unnið að því að greiða úr málum þegar sýnt þykir að stefni í skort á lyfjum, m.a. með því að útvega undanþágulyf í samvinnu við lyfjaheildsala.
Elvanse Adult
Skortur hefur verið á tveimur styrkleikum ADHD lyfsins Elvanse Adult frá í lok júlí, 30 mg og 50 mg. Elvanse Adult 70 mg er enn fáanlegt.
Síðan tilkynning um skortinn barst hefur Lyfjastofnun ásamt lyfjaheildsölum unnið að því að fá birgðir til landsins. Bæði skráð lyf og undanþágulyf eru væntanleg á næstu vikum í einhverjum mæli.
- Elvanse Adult 30 mg – væntanlegt í byrjun október
o Takmarkað magn undanþágulyfs væntanlegt í september - Elvanse Adult 50 mg – væntanlegt í byrjun september
o Takmarkað magn undanþágulyfs einnig væntanlegt í september
Samheitalyfið Volidax var markaðssett í ágúst en birgðir kláruðust fljótt og nýjar birgðir ekki væntanlegar aftur fyrr en í lok október.
Lyfjastofnun hvetur þá sem lenda í vanda vegna skortsins að leita til læknis til að fá ráðgjöf varðandi úrræði meðan lyfjasendinganna er beðið.
Lyfjaskírteini
Þegar um er að ræða lyf sem Sjúkratryggingar Íslands taka almennt ekki þátt í að greiða, getur læknir sótt um lyfjaskírteini SÍ fyrir einstakling að uppfylltum ákveðnum skilyrðum samkvæmt vinnureglum. Sjúkratryggingar taka þá þátt í kostnaði við umrætt lyf fyrir viðkomandi. Tilteknir sérfræðilæknar þurfa að senda inn fyrstu umsókn vegna sumra lyfja eins og fram kemur á þeirri upplýsingasíðu SÍ sem hér er deilt.
Samkvæmt upplýsingum sem Lyfjastofnun hefur frá Sjúkratryggingum Íslands munu núgildandi lyfjaskírteini fyrir Elvanse Adult gilda fyrir undanþágulyf. Ef einstaklingur er með lyfjaskírteini fyrir Elvanse en þarf að skipta yfir í metýlfenidat, getur heimilislæknir sótt um lyfjaskírteini fyrir það síðarnefnda.
Lyfjaheildsalar bera ábyrgð á birgðahaldi lyfja
Samkvæmt reglugerð um innflutning og heildsöludreifingu lyfja, er lyfjaheildsölum skylt að sjá til þess að birgðir og þar með framboð lyfja sé tryggt. Engu að síður getur ýmislegt orðið til þess að lyf skorti tímabundið þrátt fyrir að skyldum sé sinnt. Ástæður geta m.a. verið vandkvæði í framleiðsluferli, skortur á efni sem þarf til framleiðslunnar, vandamál í flutningi, en líka aukin eftirspurn. Ef eftirspurn eykst snögglega getur birgðastaða orðið viðkvæm, sérstaklega ef það sama á sér stað í nágrannalöndunum eins og raunin er nú.
Úrræði Lyfjastofnunar þegar kemur að lyfjaskorti eru m.a. þau að afla upplýsinga um framboð undanþágulyfja og hvetja lyfjaheildsala til að útvega þau, en að auki hefur stofnunin gripið til ýmissa ráðstafana til að koma í veg fyrir lyfjaskort og draga úr áhrifum hans.
Leiðbeiningar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur gefið út leiðbeiningar til þeirra sem nota Elvanse. Í þeim segir að notendum Elvanse sé ráðlagt að reyna að spara lyfið eins og hægt er, til dæmis með því að sleppa því að taka lyfið á dögum þar sem fyrirsjáanlegt er að lítið áreiti verði. Sjá nánar í frétt Heilsugæslunnar.
Staðan á Elvanse Adult
Upplýsingar um stöðu á Elvanse Adult og undanþágulyfjum sem verða fáanleg í staðinn er að finna í lyfjaskortsfrétt um málið sem er uppfærð eftir þörfum. Sjá nánari upplýsingar.