Lyfjastofnun vill minna á mikilvægi þess að varast beinan hita þegar notaðir eru lyfjaplástrar sem innihalda ópíóíða. Hiti getur valdið því að virka efnið í plástrinum frásogist of hratt inn í líkamann sem getur valdið alvarlegum aukaverkunum, þar á meðal banvænni eitrun.
Hvað þarf að hafa í huga?
Ef þú ert með lyfjaplástur á húðinni sem inniheldur ópíóíða skaltu forðast að vera samtímis í miklum hita, svo sem í heitu baði, gufubaði eða heitum potti. Til að tryggja öryggi og koma í veg fyrir alvarlegar aukaverkanir skal fjarlægja lyfjaplásturinn áður en farið er í heitt bað, gufubað eða heitan pott. Það sama á við um hita af öðru tagi, s.s. þegar notaðir eru hitapokar eða hitateppi og þegar sólböð eru stunduð þ.á.m. í ljósabekkjum.
Hvað með lyfjaplástra sem innihalda önnur lyf en ópíóíða?
Til eru aðrar tegundir lyfjaplástra sem innihalda virk innihaldsefni af ýmsu tagi, s.s. getnaðarvarnarplástrar og hormónauppbótarmeðferð. Jafnvel þó lyfjaplásturinn innihaldi ekki ópíóíða er mælt með því að lesa fylgiseðilinn áður en farið er í heitt bað, gufu eða hita af öðru tagi til að fá leiðbeiningar um örugga notkun lyfsins.
Fylgiseðillinn sem fylgir lyfinu veitir nánari upplýsingar um notkun þess og hugsanlegar aukaverkanir. Fylgiseðillinn fylgir með öllum lyfjaumbúðum en honum er einnig hægt að fletta upp á vefnum lyf.is
Hvert á að leita ef spurningar vakna?
Ef spurningar um lyf og lyfjanotkun vakna er bent á að hafa samband við heilbrigðisstarfsmann í símaráðgjöf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í síma 1700 eða í netspjalli Heilsuveru. Einnig er hægt að fá ráðgjöf um lyf og lyfjanotkun hjá lyfjafræðingum og lyfjatæknum í apóteki.