Nýverið var farið að birta upplýsingar um fjölda undanþágulyfseðla á vef Lyfjastofnunar.
Undanþágulyf er lyf sem ekki hefur gilt markaðsleyfi á Íslandi, eða lyf sem hefur markaðsleyfi á Íslandi en er ekki markaðssett. Læknir getur sótt um leyfi til Lyfjastofnunar til að nota undanþágulyf þegar ekki er hægt að nota lyf sem markaðssett eru á Íslandi.
Stofnunin hefur árum saman unnið að því í samvinnu við markaðsleyfishafa, íslenska umboðsmenn þeirra og erlendar lyfjastofnanir, að fá skráð hér á landi þau lyf sem mest eru notuð í undanþágukerfinu. Sú vinna hefur skilað umtalsverðum árangri. Lyfjastofnun mun áfram vinna að þessu verkefni og sem fyrr með áherslu á þau lyf sem eru fyrirferðarmest í undanþágukerfinu á hverjum tíma. Þetta er mikilvægt þar sem undanþágulyfjum fylgja ekki leiðbeiningar á íslensku um notkun, aukaverkanir og fleira. Ábyrgð lækna er því önnur og meiri þegar slíkum lyfjum er ávísað miðað við það sem gildir um markaðssett lyf. Fjöldi undanþágulyfseðla hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár; árið 2017 voru afgreiddir rösklega 12.000 undanþágulyfseðlar hjá Lyfjastofnun.
Á árinu 2015 var byrjað að innleiða rafrænt kerfi undanþágulyfseðla vegna lyfja fyrir menn. Skemmst er frá því að segja að notkun rafrænu seðlanna hefur aukist jafnt og þétt. Árið 2017 var hlutfall þeirra ríflega 82%. Undanþágulyfseðlar vegna dýralyfja eru enn á pappír en umfang þeirra er mun minna en í tilviki lyfja fyrir menn.
Upplýsingarnar um fjölda undanþágulyfseðla er að finna undir efnisflokknum Leyfisveitingar lyfja / Markaðsleyfi.