Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hefur hafist handa við að meta umsókn sem varðar notkun COVID-19 bóluefnisins Comirnaty hjá börnum 5-11 ára. Nefndin mun meta gögn sem berast úr klínískri rannsókn sem nú stendur yfir í þessum aldurshópi.
Comirnaty er mRNA bóluefni og örvar með því líkamann til að framleiða broddpróteinið sem er lykill SARS-Cov-2 veirunnar til að komast inn í frumur líkamans. Ónæmiskerfi þess bólusetta lítur á próteinið sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur (hvít blóðkorn) gegn því. Þannig mun ónæmiskerfið þekkja próteinið, berist veiran í líkamann, og hamla því að hún valdi sýkingu.
Leyfi gæti fengist að tveimur mánuðum liðnum
Comirnaty fékk upphaflega markaðsleyfi á Íslandi og annars staðar í Evrópu 21. desember á síðasta ári, þá fyrir 16 ára og eldri. Núgildandi leyfi heimilar notkun hjá fólki 12 ára og eldra. Niðurstöðu CHMP á mati gagna varðandi notkun hjá 5-11 ára verður vísað til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem tekur endanlega ákvörðun. Verði niðurstaðan jákvæð gæti heimild til notkunar Comirnaty hjá 5-11 ára fengist eftir u.þ.b. tvo mánuði.