Fjöldi tilkynninga vegna gruns um aukverkun lyfs var samtals 180 á síðustu sex mánuðum ársins 2024 eða að meðaltali 30 á mánuði, samanborið við 148 á fyrstu sex mánuðunum, um 24 á mánuði, að meðaltali. Fleiri tilkynningar á síðari hluta árs samanborið við þann fyrri, skýrist að mestu af fjölda tilkynninga í nóvember sem sker sig úr; að öðru leyti er fjöldi tilkynninga nokkuð svipaður á allt árið. -Alls var heildarfjöldi tilkynntra aukaverkana 328 árið 2024, þar af voru 146 alvarlegar, en 182 töldust ekki alvarlegar.
Fjöldi tilkynninga um alvarlega aukaverkun í nóvember skýrist af tilkynningum frá Embætti landlæknis sem varða lyfjatengd andlát. Landlæknir sendir reglubundið tilkynningar um lyfjatengd andlát til Lyfjastofnunar. Þær sem bárust í nóvember sl. voru um atvik árið 2023 og voru 49 talsins; bent skal á að tilkynningar eru skráðar í þeim mánuði sem þær berast þótt það sem um ræðir hafi orðið á öðrum tíma. -Tilkynningar annar eðlis um alvarlegar aukaverkanir í nóvember, voru því 4.
Tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir sem bárust á síðari hluta ársins 2024, aðrar en tilkynningarnar frá Embætti landlæknis, voru af ýmsum toga, þ.m.t., svefnvandamál, bráður nýrnaskaði, uppköst, niðurgangur, lifrarskaði, brisbólga, og sjálfsskaðandi hegðun.
Minna má á að tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir lyfja eru sérstaklega mikilvægar, þótt allar tilkynningar um aukaverkanir skipti máli. Þær veita mikilvægar upplýsingar sem leitt geta til þess að öryggi og verkun lyfs er endurmetin.

Þau sem tilkynna
Notendur lyfja eru þeir sem flestar tilkynningar senda á þessu hálfs árs tímabili, eða 58. Lyfjafræðingar sendu 52 tilkynningar, læknar sendu 16 tilkynningar, og annað heilbrigðisstarfsfólk 54.
Minnt skal á að heilbrigðisstarfsfólki sem hefur grun um að skjólstæðingur hafi fengið alvarlega, nýja eða óvænta aukaverkun af notkun lyfs, er skylt að tilkynna það til Lyfjastofnunar. Þessi skylda er bundin í lög sem tóku gildi í ársbyrjun 2021, hana er að finna í 63. gr. lyfjalaga.

Rétt er að taka fram að um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun er að ræða. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar lyfjanotkunar, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi sé að ræða milli tilvikanna og lyfjanotkunarinnar. Fjölda aukaverkanatilkynninga ber alltaf að skoða í samhengi við notkun lyfs eða bóluefnis.
Mikilvægt að tilkynna um aukaverkun lyfs
Enn skal ítrekað að aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar.
Allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs
Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar. Auk þess getur heilbrigðisstarfsfólk tilkynnt í gegnum Sögukerfið á þar til gerðu eyðublaði.