Þegar erfitt er að fá lyfin sem þú þarfnast

Stundum kemur fyrir að erfitt er að fá þau lyf sem við þurfum á að halda. Hverju sinni skortir tiltölulega lítinn hluta þeirra fjölmörgu lyfja sem eru markaðssett á Íslandi

Þegar slíkt kemur fyrir getur það haft í för með sér óvissu og óþægindi fyrir þann sem skorturinn bitnar á. Við höfum tekið saman fimm gagnleg ráð fyrir lyfjanotendur.

Hvað get ég gert þegar erfitt er að fá lyfin sem ég þarfnast?

  1. Leitaðu ráða í apóteki ef lyfið sem þú fékkst ávísað er ekki til. Oftar en ekki er hægt að leysa lyfjaskortinn í apótekinu. Lyfjafræðingar og lyfjatæknar í apótekum geta ráðlagt þér um hvort sama lyf í öðrum styrkleika eða pakkningastærð, eða sama lyf frá öðrum framleiðanda er fáanlegt. Ef ekki, getur starfsfólk apóteksins séð hvort lyfið er til í öðru apóteki innan sömu apótekskeðju.
  2. Ef ofangreindar leiðir ganga ekki til að leysa úr lyfjaskortinum getur verið að fáanlegt sé undanþágulyf. Undanþágulyf eru lyf sem hafa ekki markaðsleyfi á Íslandi, eða hafa íslenskt markaðsleyfi en markaðsleyfishafi þess hefur ákveðið að markaðssetja lyfið ekki á Íslandi. Því fylgja lyfinu engar leiðbeiningar á íslensku. Í ákveðnum skortstilfellum getur starfsfólk apóteka breytt ávísun læknis í undanþágulyf án þess að hafa samband við lækni. Lyfjastofnun hefur metið slík skipti örugg.
  3. Hafðu samband við heilsugæsluna ef ekki er hægt að leysa lyfjaskortinn í apótekinu með ofangreindum leiðum.
  4. Varastu að kaupa meira af þínum lyfjum en þú þarft á að halda. Hætt er við því að einhver annar sem þarf á lyfinu að halda grípi í tómt, og auk þess er nauðsynlegt að nota lyf áður en þau fyrnast.
  5. Tilkynntu lyfjaskortinn til Lyfjastofnunar. Auðvelt er að tilkynna lyfjaskort nafnlaust á vefnum og það krefst ekki innskráningar. Lyfjaskortsteymi Lyfjastofnunar yfirfer allar tilkynningar um lyfjaskort og fylgir þeim eftir.

Fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Hvað gerir Lyfjastofnun þegar lyfjaskortur kemur upp?

Hjá Lyfjastofnun er starfrækt sérstakt lyfjaskortsteymi. Lyfjaskortsteymið vaktar stöðugt lyfjaskort á Íslandi og tekur á móti tilkynningum um lyfjaskort frá lyfjafyrirtækjum og almenningi. Teymið vinnur að því að koma í veg fyrir að lyfjaskortur komi upp en einnig að því að leysa úr lyfjaskorti sem þegar hefur komið upp. Vinnan fer fram í samstarfi við lyfjafyrirtækin, heildsölur í landinu, apótek, heilbrigðisstofnanir og önnur yfirvöld.
Hjá samráðsvettvangi evrópskra lyfjastofnana er einnig unnið að því að koma í veg fyrir og leysa úr lyfjaskorti. Lyfjaskortsteymi Lyfjastofnunar er virkur þátttakandi í því samstarfi.

Afhverju kemur upp lyfjaskortur?

Ástæður þess að lyfjaskortur kemur upp tímabundið öðru hverju, bæði á Íslandi og í öðrum löndum Evrópu má rekja til flókinnar aðfangakeðju lyfja frá framleiðslu til lyfjanotenda.

Síðustu misseri hafa auk þess verðbólga, aukinn framleiðslukostnaður lyfja og hærri flutnings- og orkukostnaður í Evrópu haft áhrif. Þar að auki má nefna langtímaáhrif vegna COVID-19 og stríðsins í Úkraínu.

Hægt að nota annað sambærilegt lyf í 90-94% tilfella

Lang flest tilvik lyfjaskorts sem upp koma eru leyst með þeim úrræðum sem hér hafa verið nefnd og krítískur lyfjaskortur því sem betur fer óalgengur.

Árið 2022 var til að mynda hægt að leysa 94% þeirra lyfjaskortstilfella sem tilkynnt voru til Lyfjastofnunar með notkun annars sambærilegs markaðssetts lyfs. Það sem af er þessu ári hefur verið hægt að leysa tilkynntan lyfjaskort í 90% tilfella með sama hætti.

Síðast uppfært: 30. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat