Í lok árs 2024 voru starfandi 75 apótek hér á landi, auk sjúkrahússapóteks Landspítala. Þetta er aukning um eitt apótek miðað við fjölda í lok árs 2023. Á landinu voru auk þess starfrækt 25 lyfjaútibú og 4 lyfsölur heilsugæslustöðva.
Lyfjaútibú eru sölustaðir lyfja með takmarkaðri þjónustu en veitt er í lyfjabúðum. Lyfsölur kallast það rekstrarform sem er í tengslum við heilsugæslustöðvar til að tryggja lyfjadreifingu á svæðum þar sem langt er í næsta apótek eða lyfjaútibú. Önnur lyfsala utan apóteka er undanþága til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun en 19 rekstraraðilar hafa fengið heimild til þess.
Á Íslandi eru starfandi þrjár apótekskeðjur auk stakra rekstraraðila. Umfangsmest í rekstri lyfjabúða eru Lyfja hf. og Lyf og heilsa hf. sem reka 24 apótek hvor auk lyfjaútibúa. Fjöldi apóteka Lyfjavals ehf. telur innan við tug og síðan starfrækja tæplega tuttugu rekstraraðilar eitt til tvö apótek hver.
Skipting afgreiðslustaða lyfja á milli landshluta
Langflestir afgreiðslustaðir lyfja eru á höfuðborgarsvæðinu, eða tæpur helmingur en þar voru 50 apótek starfandi og eitt sjúkrahúsapótek. Á Norðurlandi voru 8 apótek og 9 útibú starfrækt sem jafngildir samanlagt 16% allra afgreiðslustaða, þar af voru 5 á Akureyri. Á Suðurnesjum voru 5 apótek og 2 útibú en á Suðurlandi voru 5 apótek, 4 útibú og 2 lyfsölur heilsugæslustöðva. Fjöldi apóteka á Austurlandi er 2, útibú eru 5 og ein lyfsala heilsugæslustöðvar. Á Vesturlandi eru 4 apótek og 3 útibú en á Vestfjörðum er eitt apótek, 2 lyfjaútibú og ein lyfsala heilsugæslu. Listi yfir starfandi apótek hverju sinni er aðgengilegur á vef Lyfjastofnunar.

Apótek af meðalstærð
Meðalafgreiðslutími apóteka á viku nam 55,2 stundum en 55,0 stundum þegar sjúkrahúsapótekið er tekið með í reikninginn. Meðalopnunartími apóteka um helgar er 7,1 klst. Þrjú apótek á höfuðborgarsvæðinu voru með opnunartíma yfir 100 stundir á viku og þar af er eitt apótek með opið allan sólarhringinn alla daga vikunnar.
Viðvera lyfjafræðinga á opnunartíma á virkum dögum nemur að meðaltali 1,7 lyfjafræðingi en viðvera lyfjatækna nemur að meðaltali 0,4 lyfjatækni. Að meðtali eru 2,9 aðrir starfmenn að störfum á almennum afgreiðslutíma.
Starfsfólk megin afgreiðslustaða lyfja
Fjöldi starfsfólks í apótekum, lyfjaútibúum og lyfsölum var rétt rúmlega níu hundruð sem er sambærilegur fjöldi og árið áður. Þar af voru 285 lyfjafræðingar og 53 lyfjatæknar. Fjöldinn segir ekki til um starfshlutfall. Hlutfall starfsfólks apóteka úr röðum lyfjafræðinga og lyfjatækna er sambærilegt við fyrra ár eða 38%.

Fjölbreytt starfsemi
Meðal þess sem starfsfólk margra apóteka starfa við er að þjónusta heilbrigðisstofnanir með öflun lyfja og eftirliti með notkun þeirra. Sinntu 15 apótek slíku eftirliti hjá 61 heilbrigðisstofnun á árinu 2024. Hluti sjúklinga fær skömmtuð lyf og fá langflestir lyf í svokallaðri vélskömmtun en 5% fá lyf sem hefur verið handskammtað. Á landsbyggðinni er nokkuð um að apótek sinni lyfjum í skipskistum og störfuðu 20 apótek við það, 70% þeirra eru staðsett á landsbyggðinni.
Lyfsala utan apóteka
Lögum samkvæmt er Lyfjastofnun heimilt að veita almennum verslunum heimild til sölu tiltekinna lausasölulyfja. Slíkar undanþágur má aðeins veita þar sem ekki er starfrækt apótek eða lyfjaútibú. Viðmiðið er að a.m.k. 20 kílómetrar séu í næsta apótek eða lyfjaútibú. Lyfsala í almennum verslunum takmarkast við lægsta styrkleika ákveðinna lausasölulyfja í minnstu fáanlegu pakkningastærð. Þar af leiðir að ekki er hægt að nálgast lyfseðilsskyld lyf í almennum verslunum.
Fjöldi apóteka og afgreiðslustaða lyfja í samanburði við fólksfjölda
Megin afgreiðslustaðir lyfja (apótek, lyfjaútibú, lyfsölur, sjúkrahúsapótek) voru alls 105 í lok árs 2024. Fjöldi landsmanna á hvern þessara afgreiðslustaða var 3.709 í árslok 2024. Fjöldi landsmanna á hvert apótek var 5.193 og fjöldi landsmanna á hvert apótek á höfuðborgarsvæðinu var 4.981.

Þegar teknar eru með í reikninginn almennar verslanir sem hafa gild leyfi til sölu tiltekinna lausasölulyfja er um að ræða 124 staði.
Heimildir
- Niðurstöður árlegra kannana um mönnun apóteka, framkvæmdar af Lyfjastofnun. Síðast í febrúar-mars 2025.
- Fólksfjöldatölur frá Hagstofu Íslands. Hlutfallstölur fyrir fyrri ár kunna að vera frábrugðnar því sem áður hefur verið gefið út vegna breytingar á aðferðafræði Hagstofunnar við útreikning á mannfjölda.