Starfsemi apóteka árið 2023

37% starfsfólks apóteka úr röðum lyfjafræðinga og lyfjatækna

Í lok árs 2023 voru starfandi 74 apótek hér á landi, auk sjúkrahússapóteks Landspítalans, 27 lyfjaútibú og fjórar lyfsölur heilsugæslustöðva. Á árinu hættu tvö apótek rekstri og eitt hóf rekstur.

Á Íslandi má segja að séu starfandi þrjár apótekskeðjur. Umfangsmestar í rekstri eru Lyfja hf. og Lyf og heilsa hf. sem reka yfir tuttugu apótek hvor auk lyfjaútibúa. Fjöldi apóteka Lyfjavals ehf. telur innan við tug og síðan starfrækja tæplega tuttugu rekstraraðilar eitt til tvö apótek hver.

Á höfuðborgarsvæðinu voru 49 apótek starfandi og þar að auki eitt sjúkrahúsapótek, 5 apótek á Suðurnesjum, 5 á Akureyri og 15 annars staðar á landsbyggðinni. Listi yfir starfandi apótek hverju sinni er aðgengilegur á vef Lyfjastofnunar.

Auk apótekanna voru 27 lyfjaútibú í rekstri á landinu, þar af rekur Lyfja hf. 21 þeirra. Lyfjaútibú eru sölustaðir lyfja með takmarkaðri þjónustu en veitt er í lyfjabúðum. Þau flokkast í þrennt eftir menntun starfsfólks og þjónustu sem þeim er heimilt að veita.

Á árinu voru starfrækt tvö útibú í flokki eitt, þrettán í flokki tvö og tólf í flokki þrjú.

Á landsbyggðinni eru að auki fjórar lyfsölur í tengslum við rekstur heilsugæslustöðva til að tryggja lyfjadreifingu á svæðum þar sem langt er í næsta apótek eða lyfjaútibú. Önnur lyfsala utan apóteka er undanþága til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun en 18 rekstraraðilar hafa fengið heimild til þess.

Apótek af meðalstærð

Meðalafgreiðslutími apóteka á viku nam 57,5 stundum sem er tæplega 8% aukning frá árinu áður. Viðvera lyfjafræðinga á afgreiðslutíma stendur í stað á milli ára en viðvera lyfjatækna fer eilítið niður. Öðru starfsfólki fjölgar um 9% á milli ára.

Afgreiðslutími apóteka

Að meðaltali var opnunartími allra apóteka á landinu 57,5 stundir á viku. Meðaltalið er nokkuð breytilegt þegar það er skoðað eftir landssvæðum. Lengstur var opnunartími apóteka á Suðurnesjum og stystur á Austurlandi. Eitt apótek á höfuðborgarsvæðinu var með opið allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Þrjú apótek, einnig á höfuðborgarsvæðinu, voru opin í 110-112 stundir á viku. Stystur opnunartími á höfuðborgarsvæðinu var 40 stundir á viku. Á landsbyggðinni var eitt apótek opið í 30 stundir á viku og annað í 35 en annars staðar á landsbyggðinni var opið í 40 stundir eða lengur í hverri viku. Á Suðurnesjum var lengstur opnunartími 84 stundir í viku í einu apóteki og á Selfossi voru tvö apótek opin í 51 stundir eða lengur. Á Akureyri var lengsti opnunartíminn 55 klukkustundir á viku og á Akranesi var lengst opið í 51 klukkustund í viku.

37% starfsfólks apóteka úr röðum lyfjafræðinga og lyfjatækna

Alls störfuðu 905 manns í apótekum, lyfjaútibúum og lyfsölum árið 2023. Þar af voru 280 lyfjafræðingar og 53 lyfjatæknar. Aðrir starfsmenn voru 572 talsins. Tæp 74% lyfjafræðinga voru starfandi í apótekum á höfuðborgarsvæðinu, en um 26% á landsbyggðinni. Hlutfall lyfjatækna starfandi í apótekum höfuðborgarsvæðisins var 62% á móti tæpum 40% á landsbyggðinni.

Samanlagt starfaði 64% alls starfsfólks apóteka, lyfjaútibúa og lyfsala landsins á höfuðborgarsvæðinu sem er nokkurn veginn í samræmi við skiptingu mannfjölda landsins en árið 2023 bjuggu tæp 62% landsmanna á höfuðborgarsvæðinu.

Afgreiddum lyfjaávísunum fjölgar hraðar en íbúum landsins

Frá árinu 2022 fjölgaði afgreiddum lyfjaávísunum um tæp 5%. Aukning í lyfjaávísunum frá árinu 2019 er rúm 23% en á sama tíma hefur fólksfjöldi á Íslandi aukist um 8,6% og fólki á aldrinum 65 ára og eldri um tæp 14%.

Íslendingum hefur fjölgað um rúm 8,5% frá árinu 2019. Á sama tíma hefur einstaklingum á aldrinum 65 ára og eldri fjölgað um 14% á árunum 2019 – 2024. Lyfjaávísunum hefur fjölgað enn meira á sama tíma eða um rúm 23%.

Lyfsala utan apóteka

Lögum samkvæmt er Lyfjastofnun heimilt að veita almennum verslunum heimild til sölu tiltekinna lausasölulyfja. Slíkar undanþágur má aðeins veita þar sem ekki er starfrækt apótek eða lyfjaútibú. Viðmiðið er að a.m.k. 20 kílómetrar séu í næsta apótek eða lyfjaútibú. Lyfsala í almennum verslunum takmarkast við lægsta styrkleika ákveðinna lausasölulyfja í minnstu fáanlegu pakkningastærð. Þar af leiðir að ekki er hægt að nálgast lyfseðilsskyld lyf í almennum verslunum.

Fjöldi apóteka og afgreiðslustaða lyfja í samanburði við fólksfjölda

Afgreiðslustaðir lyfja voru alls 124 í lok árs 2023 þegar teknar eru með í reikninginn almennar verslanir sem hafa gild leyfi til sölu tiltekinna lausasölulyfja. Rúmlega 3.100 landsmenn eru á hvern afgreiðslustað lyfja.

Ef almennar verslanir eru undanskildar var um að ræða 106 afgreiðslustaði á landinu, sem er fækkun um tæp 3% á milli ára. Fjöldi landsmanna á hvern afgreiðslustað lyfja (að almennum verslunum undanskildum) var 3.620 í árslok 2023 sem er fjölgun um tæp 6% á milli ára.

Fjöldi apóteka í árslok var 74, en tvö apótek hættu rekstri á árinu og einu útibúi var breytt í apótek. Í samanburði við fólksfjölda á landinu eykst fjöldi landsmanna á hvert apótek um tæp 6%. Skýrist það af auknum fólksfjölda á milli ára á sama tíma og apótekum landsins fækkaði um 2.

Fjöldi afgreiðslustaða í samanburði við íbúafjölda

Ef fjöldi afgreiðslustaða lyfja miðað við íbúafjölda er skoðaður sést að fjöldi íbúa á hvern afgreiðslustað er langhæstur á höfuðborgarsvæðinu eða tæpir 4.900 íbúar á hvern afgreiðslustað. Hér er átt við apótek, lyfjaútibú, sjúkrahúsapótek og lyfsölu heilsugæslustöðva. Að sama skapi eru lang fæstir íbúar á Austurlandi á bak við hvern afgreiðslustað. Eins og fram hefur komið var fjöldi landsmanna á hvern afgreiðslustað lyfja (að almennum verslunum undanskildum) 3.620 í árslok 2023.

Skipting afgreiðslustaða lyfja á milli landshluta

Taflan hér að neðan sýnir skiptingu afgreiðslustaða lyfja eftir landshlutum í árslok 2023. Langflestir afgreiðslustaðir lyfja eru á höfuðborgarsvæðinu, eða tæpur helmingur. Á Norðurlandi eru 8 apótek og 9 útibú sem gerir samanlagt 17% allra afgreiðslustaða. Á Suðurnesjum eru 5 apótek og 3 útibú, á Austurlandi eru apótekin 2, útibú 5 og ein lyfsala heilsugæslustöðvar. Á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem eru sameinuð í hóp til einföldunar eru um 10% afgreiðslustaða á landinu eða 5 apótek, 5 útibú og ein lyfsala heilsugæslustöðvar. Apótek á Suðurlandi eru 5 talsins og útibúin fjögur. Þar að auki eru lyfsölur á heilsugæslustöðvunum í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri.

Heimildir:

  • Niðurstöður árlegra kannana um mönnun apóteka, framkvæmdar af Lyfjastofnun
  • Fólksfjöldatölur frá Hagstofu Íslands.
  • Fjöldi afgreiddra lyfjaávísana frá Sjúkratryggingum Íslands
Síðast uppfært: 10. júní 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat