Smásöluálagning lyfseðilsskyldra lyfja breytist 1. júlí 2022

Lyfjastofnun hefur tekið ákvörðun um breytingu á smásöluálagningu

Við gildistöku nýrra lyfjalaga 1. janúar 2021 fékk Lyfjastofnun það hlutverk að taka ákvörðun um verð og greiðsluþátttöku í lyfjum hér á landi, þar á meðal að ákvarða hámarksverð í smásölu á ávísunarskyldum lyfjum. Það er markmið lyfjalaga að halda lyfjakostnaði í lágmarki, og við ákvörðun hámarksverðs ávísunarskyldra lyfja í heildsölu og smásölu skal Lyfjastofnun jafnframt taka mið af verði sömu lyfja í viðmiðunarlöndum. Endurmeta skal forsendur lyfjaverðs reglulega, eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti, og gera tillögur um breytingar gefi matið tilefni til þess.

Lyfjastofnun hefur nú í fyrsta sinn tekið ákvörðun um breytingu á smásöluálagningu lyfseðilsskyldra lyfja og er ákvörðunin þríþætt.

Í fyrsta lagi er smásöluálagningarþrepum breytt. Við bætist nýtt þrep (0 – 4.999 kr.) og lækkar álagning ódýrustu lyfja samanborið við fyrra fyrsta þrep en álagning í næstu þrepum hækkar. Breytingin sem fólgin er í nýrri ákvörðun Lyfjastofnunar og breyttri smásöluálagningu ávísunarskyldra lyfja hér á landi nemur í heild 2,5% heildarhækkun á álagningu miðað við selt magn árið 2021 og lyfjaverðskrárgengi í apríl 2022.

Smásöluálagning verður sem hér segir frá 1. júlí 2022:

Hámarks heildsöluverðSmásöluálagning
0 – 4.999 kr.20% + 1.069 kr.
5.000 – 19.999 kr.14% + 1.270 kr
20.000 – 99.999 kr.2% + 2.900 kr.
> 100.000 kr.0,3% + 5.750 kr.

Í öðru lagi tekur svo smásöluálagning aftur breytingum 1. janúar 2023. Frá þeim tíma munu lyfjabúðir fá greitt sérstaklega, 120 kr., fyrir afgreiðslu ódýrasta lyfs og innan við 5% frá ódýrasta verði í viðkomandi viðmiðunarverðflokki.

Í þriðja og síðasta lagi verða þær breytingar gerðar 1. mars 2023 að smásöluálagning ávísunarskyldra lyfja hækkar sem samsvarar verðlagsforsendum fjárlaga 2023. Þannig mun heildarupphæð smásöluálagningarinnar þá hækka í samræmi við prósentuhlutfall verðlagsbreytinga og mun þessi hækkun dreifast mismunandi á fyrrgreind verðbil.

Samhliða þessari ákvörðun hefur Lyfjastofnun lagt til við heilbrigðisráðherra að hafist verði handa við að útfæra styrki til að treysta rekstrargrundvöll lyfjabúða á landsbyggðinni, sem og að lyfjabúðum verði greitt sérstaklega fyrir skilgreinda þætti lyfjafræðilegrar þjónustu sem lyfjafræðingar geta veitt í lyfjabúðum, t.d. ráðgjöf um notkun tiltekinna lyfja.

Áhrif ákvörðunarinnar sem Lyfjastofnun hefur nú tekið um smásöluálagningu ávísunarskyldra lyfja verða metin jafnóðum, bæði með tilliti til rekstrarumhverfis lyfjabúða, og gæða og umfangs þeirrar þjónustu sem neytendum og sjúklingum er veitt í lyfjabúðum. Mun þetta mat liggja til grundvallar næstu endurskoðunar smásöluálagningar sem fara mun fram á fyrri hluta árs 2024.

Ákvörðun Lyfjastofnunar er tekin í samræmi við ákvæði lyfjalaga að höfðu samráði við fulltrúa lyfsöluleyfishafa. Ákvörðunin miðar að því að Ísland taki fyrstu skref í að færa smásöluverð nær viðmiðunarlöndum í lægstu verðflokkum, auk þess að skapa frekari hvata til að lyfjabúðir bjóði ávallt ódýrustu lyf í viðmiðunarflokkum og auka líkur á að ódýrari lyfjum fjölgi á íslenskum lyfjamarkaði. Lyfjastofnun vinnur þar að auki að ýmsum aðgerðum til að auka framboð lyfja og að stuðla að því að notkun byggist á skynsamlegum og hagkvæmum grunni.

Síðast uppfært: 20. maí 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat