Fyrr í þessum mánuði var greint frá því í frétt Morgunblaðsins að starfsmenn í apótekum hefðu skoðað lyfjaávísanir sem tilheyrðu þjóðþekktu fólki án þess að tilefni væri til. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar staðfesti í svari til blaðsins að stofnuninni hefðu borist ábendingar um slíkt, eins og embætti landlæknis gerði einnig.
Rafrænar lyfjaávísanir vistaðar í lyfjagagnagrunni
Þegar læknir ávísar lyfi til einstaklings er þeim upplýsingum beint í rafrænan lyfjagagnagrunn sem í daglegu tali er kallaður lyfjagátt. Embætti landlæknis hefur umsjón með lyfjagáttinni og ber ábyrgð á henni.
Starfsmenn apóteka hafa aðgang að gáttinni svo hægt sé að afgreiða lyf til einstaklinga. Meðan lyf hafa ekki verið afgreidd er hægt að sjá hvaða lyfi hefur verið ávísað á tiltekinn einstakling. Í núverandi kerfi sést hvar og hvenær flett er upp í lyfjagáttinni en ekki er hægt að greina hvaða starfsmaður á í hlut.
Bent hefur verið á mikilvægi þess að skilyrða aðgang að gáttinni með auðkenningu notanda, svo hægt verði að rekja uppflettingu til einstakra starfsmanna þyki tilefni til.
Rík áhersla lögð á þagnarskyldu starfsmanna apóteka
Kveðið er á um þagnarskyldu starfsmanna apóteka bæði í lögum og reglugerð. Í 34. gr. lyfjalaga nr. 100/2020 kemur fram að starfsmenn apóteka eru bundnir þagnarskyldu um alla vitneskju eða grun sem þeir öðlast í starfi sínu um sjúkdóma eða önnur einkamál.
Þagnarskylduákvæðið er ítrekað í reglugerð um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir, en í 8. gr. kemur fram að lyfsöluleyfishafi skuli með formlegum hætti kynna starfsfólki sínu ákvæði lyfjalaga um þagnarskyldu starfsfólks í apótekum.
Að auki undirrita starfsmenn apóteka trúnaðaryfirlýsingu þegar þeir hefja störf.
Eftirlit Lyfjastofnunar með starfsemi apóteka
Samkvæmt lyfjalögum er eitt af hlutverkum Lyfjastofnunar að hafa eftirlit með starfsemi apóteka. Eftirlitið fer fram með reglubundinni úttekt á starfseminni, þar sem skoðaðir eru þættir sem varða húsnæði, merkingu húsnæðis, búnað, starfshætti og gæðakerfi apóteks. Í úttekt er m.a. farið yfir gæðaskjöl til að ganga úr skugga um að verkferill vegna trúnaðaryfirlýsingar sé til staðar. Jafnframt eru skoðaðar undirritaðar trúnaðaryfirlýsingar til að sannreyna að verkferillinn sé virkur.
Ábyrgð lyfsöluleyfishafa undirstrikuð með áminningarpósti
Í ljósi fréttaumfjöllunar um að þagnarskylda, sem öllum starfsmönnum apóteka ber að fylgja, hafi ekki verið virt, hefur Lyfjastofnun beint þeim tilmælum til lyfsöluleyfishafa að þeir ítreki þagnarskylduákvæði laga fyrir starfsmönnum sínum, og að þeir fari yfir hvort trúnaðaryfirlýsingar séu tiltækar.