Nýjar reglur um merkingu lyfjaumbúða sem gengu í gildi sl. laugardag, 9. febrúar, munu auka öryggi fyrir notendur lyfja. Reglunum er ætlað að draga úr líkum á að fölsuð lyf rati inn í keðju löglegrar lyfjaframleiðslu. Þær fela m.a í sér að skylt verður að hafa á hverri pakkningu tiltekna merkingu sem geymir lykilupplýsingar um framleiðslu- og dreifingarferil lyfsins; eins konar fingrafar. Sömuleiðis innsigli (ATD, eða anti-tampering device) sem illmögulegt á að vera að að eiga við án þess að skilin séu eftir augljós ummerki.
Sagt var frá reglunum hér á vef Lyfjastofnunar seint á síðasta ári, og vísað í ítarlegar upplýsingar um þær.
Fölsuðum lyfjum á markaði hefur fjölgað
Framan af voru þær lyfjafalsanir sem uppgötvuðust aðallega tengdar svokölluðum lífstílslyfjum á borð við hormóna, stera og andhistamín. Á síðari tímum hefur færst í vöxt að reynt sé að koma lyfjum sem ætluð eru til meðhöndlunar lífshættulegum sjúkdómum eins og krabbameini, inn í löglegar dreifingarleiðir á Vesturlöndum. Í þróunarlöndum snýr þetta að lyfjum við sjúkdómum eins og malaríu, berklum og HIV.
Falsað lyf getur ógnað lífi og heilsu
Falsað lyf getur ógnað öryggi sjúklings. Það getur haft innihaldsefni sem ekki er í samræmi við upplýsingar, of lítið af virka efninu eða jafnvel ekkert af því. Neysla falsaðra lyfja getur þannig leitt til gagnslausrar meðferðar, óvæntra aukaverkana, eða jafnvel dauða. Falsað lyf er vísvitandi ranglega merkt með tilliti til eiginleika og/eða uppruna, skv. skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).