Rafrænt umboð til afhendingar lyfja í apóteki

Frá og með 1. október nk. verður hægt að veita umboð vegna afhendingar lyfja rafrænt í gegnum Heilsuveru. Frá sama tíma þarf sá sem sækir lyf fyrir annan en sjálfan sig að hafa til þess umboð.

Meira öryggi fylgir því að veita umboð með rafrænum hætti en á pappír, enda er krafist auðkenningar með rafrænum skilríkjum inn í Heilsuveru. Rafræna umboðið verður gilt í öllum apótekum, sé það skráð í Heilsuveru.

Þar sem um viðamiklar breytingar á hugbúnaðarkerfum apóteka er að ræða má búast við einhverjum hnökrum allra fyrst í innleiðingu rafrænna umboða en frá miðjum októbermánuði ætti ferlið að ganga snurðulaust fyrir sig.

Umboð – aukið öryggi í afhendingu lyfja

Eins og fram hefur komið á vef Lyfjastofnunar hefur verið stefnt að því að fylgja með ákveðnari hætti eftir ákvæði reglugerðar nr. 1266/2017 þar sem starfsmönnum apóteka er falið það hlutverk að tryggja örugga afhendingu lyfja til sjúklinga eða umboðsmanna þeirra; ákvæðið er í 18. grein reglugerðarinnar. Til að ótvírætt sé hver geti talist umboðsmaður í þessu tilliti, er þörf á að kalla eftir formlegu umboði þess sem sækir lyf í apótek fyrir annan en sjálfan sig.

Kröfu um skriflegt umboð á pappír var frestað fyrr í ár vegna smithættu COVID-19. Af þeim sökum, en einnig vegna erfiðleika sumra sjúklinga við að veita umboð með hefðbundnum hætti, var hjá Embætti landlæknis farið í að þróa rafræna lausn. Þá var ekki síður horft til þess að öryggi við að veita umboð í Heilsuveru er mun meira en með skriflegu umboði á pappír vegna auðkenningar með rafrænum skilríkjum. Almenningur er því eindregið hvattur til að nýta rafrænu lausnina á Heilsuveru sé þörf á að veita einhverjum umboð til að sækja lyf fyrir sig.

Hvað gildir um börn?

Börn að 16 ára aldri verða tengd foreldrum/forsjáraðilum í rafrænu umboðskerfi í Heilsuveru og þannig verður sjálfkrafa til umboð til slíkra aðila. Foreldri/forsjáraðili mun geta veitt þriðja aðila umboð til að ná í lyf fyrir barn sitt undir sextán ára aldri í gegnum rafrænt umboðskerfi Heilsuveru.

Þegar börn hafa náð 16 ára aldri er litið á þau sem sjálfstæða notendur heilbrigðisþjónustu, sbr. ákvæði VI. kafla laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Frá þeim aldri þurfa ungmenni því að veita formlegt umboð í gegnum Heilsuveru til þeirra aðila sem leysa út lyfjaávísanir í þeirra nafni. Þetta á jafnvel við þrátt fyrir að sá sem fyrirhugar að sækja lyf ungmennisins sé foreldri/forsjáraðili.

Þeir sem ekki geta nýtt sér rafræna lausn

Ljóst er að þessi fyrsta útgáfa rafrænnar lausnar við að veita umboð hentar ekki öllum en unnið verður að því að bæta hana. Hér er einkum átt við þá sem ekki geta veitt rafrænt umboð vegna fötlunar, veikinda, eða þess að rafræn skilríki eru ekki til staðar. Í þeim tilvikum verður starfsfólki apóteka heimilt að taka við umboði á pappír. Skriflegt umboð skal vera vottað. Eyðublað fyrir umboð á pappír er að finna á vef Lyfjastofnunar. Aftur skal þó ítrekað að rafrænt umboð í Heilsuveru er ávallt æskilegt verði því komið við. 

Þeir sem hvorki geta nýtt sér skriflega né rafræna lausn

Ákveðnir hópar hafa hvorki tök á því að veita rafrænt né skriflegt umboð. Þeir hópar eru m.a. öryrkjar og fatlaðir einstaklingar. Afhenda skal þessum aðilum lyf með heimsendingu á lögheimili viðkomandi, hafi þeir ekki tök á því að sækja lyfin sín sjálfir. Unnið er að framtíðarlausn fyrir þessa einstaklinga.

Heilsuvera

Spurt og svarað

Um rafræn skilríki

Eyðublað fyrir umboð á pappír

Síðast uppfært: 17. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat