Gert er ráð fyrir að skorturinn vari út árið 2023 á Íslandi. Þótt framleiðsla hafi verið aukin er ekki víst hvenær framboð af lyfinu nægi til að anna fyllilega núverandi eftirspurn.
Ozempic, sem er til í styrkleikunum 0,25 mg, 0,5 mg og 1 mg, inniheldur virka efnið semaglútíð. Lyfið er samþykkt til notkunar hjá fullorðnum með ófullnægjandi stjórn á sykursýki af tegund 2 sem viðbót við mataræði og hreyfingu.
Skorturinn nær til lyfsins í öllum markaðssettum styrkleikum:
- Ozempic 0,25 mg stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna
- Ozempic 0,5 mg stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna
- Ozempic 1 mg stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna
Lyf sem nota má í stað Ozempic
Til eru önnur blóðsykurslækkandi lyf sem hægt er að nota, bæði í sama ATC flokki en einnig í öðrum ATC flokkum. Mat á annarri hentugri lyfjameðferð í stað Ozempic er einstaklingsbundin og fer fram hjá lækni. Landspítalinn í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur sett saman leiðbeiningar fyrir lækna vegna þessa.
Ráð til lækna
- Tryggið að þeir sjúklingar sem nota Ozempic séu upplýstir um lyfjaskortinn og að þeir sjúklingar sem eiga á hættu að klára birgðir af Ozempic séu látnir skipta á öruggan hátt yfir í annan glúkagon-líkan peptíð 1 viðtakaörva eða aðra hentuga valkosti í samræmi við klínískt mat.
- Ozempic er aðeins ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sem ekki hafa náð viðunandi stjórn á sykursýki 2, til viðbótar við rétt mataræði og hreyfingu. Öll önnur notkun, þ.m.t. til þyngdarstjórnunar, telst notkun sem ekki er í samræmi við markaðsleyfi lyfs og veldur nú hættu á skorti á Ozempic fyrir þann hóp sjúklinga sem fær lyfið í samræmi við ábendingu.
- Landspítalinn í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur gefið út leiðbeiningar til lækna sem fara á eftir þegar - lyfjameðferð er breytt. Leiðbeiningarnar hafa verið sendar með tölvupósti en má einnig nálgast hér.
Ráð til apóteka
- Upplýsið þá sjúklinga sem geta ekki fengið lyfið afgreitt vegna birgðaskortsins um að lyfið sé ófáanlegt í apótekinu og að nauðsynlegt sé að hafa samband við lækni til að fá nýja ávísun.
- Landspítalinn í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur gefið út leiðbeiningar til lækna sem þeir eiga að fara eftir þegar lyfjameðferð er breytt.
Ráð til notenda Ozempic
- Ef lyfið er ófáanlegt í apótekinu er nauðsynlegt að setja sig í samband við lækni til að fá nýtt lyf.
- Fylgdu þeim leiðbeiningum sem þú færð hjá lækninum og í apótekinu.
Nánari upplýsingar hjá markaðsleyfishafa eða umboðsmanni á Íslandi
Markaðsleyfishafi Ozempic er Novo Nordisk og umboðsmaður á Íslandi er Vistor. Í samvinnu við Lyfjastofnun hafa þeir sent bréf til lækna á Íslandi um skortinn. Ef þörf er á frekari upplýsingum um birgðaskortinn er bent á markaðsleyfishafa lyfsins eða umboðsmann hans á Íslandi.