Ólöf Þórhallsdóttir nýr sviðsstjóri hjá Lyfjastofnun

Ólöf mun stýra nýju sviði hjá stofnuninni, þjónustu- og miðlunarsviði

Ólöf Þórhallsdóttir hefur verð ráðin í starf sviðstjóra þjónustu- og miðlunarsviðs Lyfjastofnunar. Þjónustu- og miðlunarsvið Lyfjastofnunar er nýtt svið í skipuriti stofnunarinnar og munu verkefni sviðsins snúa að verkefnastjórnun, upplýsingamiðlun, og ákvarðanatöku í tengslum við lyfjaverð og greiðsluþátttöku lyfja. Er sviðinu þannig ætlað að takast á við eitt af stærri verkefnunum sem Lyfjastofnun tekur við þegar ný lyfjalög, sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar, öðlast gildi 1. janúar nk.


Ólöf hefur víðtæka reynslu af stjórnun og hefur haft mannaforráð yfir allt að 200 starfsmönnum í meira en áratug. Undanfarin tvö ár hefur Ólöf starfað sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Florealis á Íslandi og í Svíþjóð þar sem hún hefur m.a. tekið þátt í stefnumótun og áætlanagerð fyrirtækisins, auk þess að stýra markaðsefni og birtingu þess og undirbúa innkomu á aðra markaði.

Áður starfaði Ólöf í 17 ár hjá Actavis og tengdum félögum, Allergan og Teva, í ýmsum stjórnunarstöðum. Í störfum sínum þar hefur Ólöf aflað sér mikillar reynslu af stefnumótun og hefur m.a. verið í stýrihópi fyrir sameiningar Allergan og Actavis, og verkefnastýrt yfirtöku Teva á Allergan. Ólöf hefur komið að gæðastarfsemi og einnig borið ábyrgð á samskipta- og kynningarstarfsemi af ýmsu tagi auk þess að bera ábyrgð á verð- og greiðsluþátttökuumsóknum, umsjón með innlendum lyfjaskráningum, og margskonar greiningum og áætlanagerð.

Ólöf er menntaður lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Þar að auki hefur hún sótt ýmis leiðtoganámskeið.

Í kjölfar ráðningarinnar hafði Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, þetta að segja:

„Við fögnum því sannarlega að fá jafn öflugan stjórnanda og Ólöfu Þórhallsdóttur til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem bíða Lyfjastofnunar á næstu misserum. Stofnunin er taka að sér mörg ný verkefni núna um áramótin, m.a. ákvarðanir um lyfjaverð og greiðsluþátttöku, og Ólöf mun gegna lykilhlutverki í að innleiða þessi nýju verkefni í starfsemi Lyfjastofnunar með farsælum hætti.“

Síðast uppfært: 17. desember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat