Ný lyf á markað 1. febrúar 2020
Ný lyf fyrir menn
Akynzeo, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 300 mg af netúpítanti og palónósetrónhýdróklóríði sem jafngildir 0,5 mg af palónosetróni. Lyfið er ætlað fullorðnum til að koma í veg fyrir bráða og síðkomna ógleði og uppköst í tengslum við krabbameinslyfjameðferð sem inniheldur cisplatín sem veldur miklum uppköstum. Að auki er það ætlað fullorðnum til að koma í veg fyrir bráða og síðkomna ógleði og uppköst í tengslum við krabbameinslyfjameðferð sem veldur meðalmiklum uppköstum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.
Alunbrig, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 30 mg, 90 mg eða 180 mg af brigatiníbi. Lyfið er ætlað til einlyfjameðferðar handa fullorðnum sjúklingum með langt gengið ALK-jákvætt lungnakrabbamein, sem er ekki af smáfrumugerð (NSCLC), sem ekki hafa áður fengið meðferð með ALK-hemli. Einnig er það ætlað til einlyfjameðferðar handa fullorðnum sjúklingum með langt gengið ALK-jákvætt lungnakrabbamein, NSCLC sem hafa áður fengið meðferð með crizotinibi. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.
Bisoprolol Medical Valley, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg eða 10 mg af bísóprólólfúmarati. Lyfið er ætlað til meðferðar við háþrýstingi og hjartaöng. Einnig í meðferð við stöðugri langvarandi hjartabilun með skertri slagbilsvirkni í vinstri slegli ásamt ACE-hemlum, þvagræsandi lyfjum og hjartaglýkósíðum sem val. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cardicor, sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi, og er lyfseðilsskylt.
COVID-19 Vaccine Moderna, stungulyf, ördreifa. Einn skammtur (0,5 ml) inniheldur 100 míkrógrömm af mRNA innfellt í SM-102 fitunanóagnir. Lyfið er ætlað til virkrar bólusetningar gegn COVID-19 af völdum SARS-CoV-2 veirunnar hjá einstaklingum sem eru 18 ára og eldri. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.
Enalapril/Hydrochlorothiazide Medical Valley, töflur. Hver tafla inniheldur 20 mg af enalapríl maleati og 12,5 mg af hýdróklórtíazíði. Lyfið er ætlað við háþrýstingi þegar staklyfsmeðferð með ACE-hemlum eða tíazíð þvagræsilyfjum hefur ekki haft nægileg áhrif. Lyfið er samheitalyf lyfsins Corenitec, sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi, og er lyfseðilsskylt.
Erleada, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 60 mg apalutamid. Lyfið er ætlað fullorðnum körlum til meðferðar við krabbameini í blöðruhálskirtli án meinvarpa, sem ekki svarar hormónahvarfsmeðferð (nmCRPC), og sem eru í mikilli hættu á að fá meinvörp. Einnig er það ætlað fullorðnum körlum til meðferðar við hormónaháðu krabbameini í blöðruhálskirtli með meinvörpum (mHSPC) ásamt andrógenbælandi meðferð (ADT). ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.
Primovist, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver ml inniheldur 0,25 mmól af dínatríum gadoxetati (dínatríum GdEOB-DTPA) sem jafngildir 181,43 mg af dínatríum gadoxetati. Ein áfyllt sprauta með 10,0 ml inniheldur 1.814 mg af dínatríum gadoxetati. Lyfið er ætlað til að greina staðbundnar meinsemdir í lifur og veitir upplýsingar um eðli meinsemdar í T1-veginni segulómun (MRI). Primovist skal eingöngu nota þegar greiningarupplýsingar eru nauðsynlegar og ekki fáanlegar með segulómun án skyggingar og þegar seinkaður fasi er nauðsynlegur. Lyfið er frumlyf, sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.
Rivaroxaban WH, filmuhúðaðar töflur.
10 mg: Hver tafla inniheldur 10 mg rivaroxaban. Lyfið er ætlað til fyrirbyggjandi meðferðar gegn bláæðasegareki hjá fullorðnum sjúklingum sem gangast undir valkvæða liðskiptiaðgerð á mjaðmar- eða hnélið. Einnig er það ætlað í meðferð við segamyndun í djúplægum bláæðum og segareki í lungum og til að fyrirbyggja endurtekna segamyndun í djúplægum bláæðum og segarek í lungum hjá fullorðnum.
15 og 20 mg: Hver tafla inniheldur 15 mg eða 20 mg rivaroxaban. Lyfið er ætlað til fyrirbyggjandi meðferðar gegn heilaslagi og segareki hjá fullorðnum sjúklingum með gáttatif án lokusjúkdóms og einn eða fleiri áhættuþætti, svo sem hjartabilun, háþrýsting, aldur ≥ 75 ára, sykursýki, sögu um heilaslag eða skammvinnt blóðþurrðarkast. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar við segamyndun í djúplægum bláæðum og segareki í lungum og til að fyrirbyggja endurtekna segamyndun í djúplægum bláæðum og segarek í lungum hjá fullorðnum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Xarelto og er lyfseðilsskylt.
Nýtt lyfjaform
Aloxi, mjúk hylki. Hvert hylki inniheldur 500 míkrógrömm af palonósetróni sem hýdróklóríð. Lyfið er ætlað fullorðnum til að koma í veg fyrir ógleði og uppköst í tengslum við krabbameinslyfjameðferð sem veldur meðalmiklum uppköstum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.