Ný lyf á markað 1. október 2021
Ný lyf fyrir menn
Evrysdi, mixtúruduft, lausn. Hvert glas inniheldur 60 mg af risdiplam í 2 g af mixtúrudufti, lausn. Hver ml af blandaðri mixtúru inniheldur 0,75 mg af risdiplam. Lyfið er ætlað til meðferðar við 5q mænuvöðvarýrnun (e. spinal muscular atrophy, SMA) hjá sjúklingum 2 mánaða og eldri, með klíníska greiningu á SMA af tegund 1, tegund 2 eða tegund 3 eða eitt til fjögur eintök af SMN2. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.
Ibutrix, mixtúra, dreifa. Hver ml af mixtúru, dreifu inniheldur 20 mg af íbúprófeni. Lyfið er ætlað til skammtímameðferðar við einkennum vægra til að miðlungi slæmra verkja og gegn hita. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er lausasölulyf.
Ivermectin Medical Valley, töflur. Hver tafla inniheldur 3 mg af ivermectíni. Lyfið ætlað sem meðferð gegn þráðormasýkingu í meltingarvegi, sem meðferð þegar grunur er um eða forlifur hafa verið greindar hjá sjúklingum með þráðormasýki í eitlum af völdum Wuchereria bancrofti og sem meðferð gegn kláðamaur. Lyfið er samheitalyf lyfsins Stromectol sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi og er lyfseðilsskylt.
Morfin Abcur, stungulyf, lausn. 1 ml inniheldur 10 mg af morfínhýdróklóríði sem samsvarar 7,6 mg af morfíni. Lyfið er ætlað sem meðferð gegn alvarlegu verkjaástandi. Lyfið er samheitalyf, eftirritunarskylt og lyfseðilskylt.
Trixeo Aerosphere, innúðalyf, dreifa. Hver stakur úðaskammtur inniheldur 5 míkrógrömm af formóterólfúmarat díhýdrati, glýkópýrróníumbrómíð 9 míkrógrömm, sem jafngildir 7,2 míkrógrömmum af glýkópýrroniumi og búdesóníð 160 míkrógrömm. Lyfið er ætlað til viðhaldsmeðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með meðalsvæsna til svæsna langvinna lungnateppu sem fá ekki fullnægjandi meðferð með samsetningu af barksterum til innöndunar og langverkandi beta2-örvum eða með samsetningu langverkandi beta2-örva og langverkandi múskarínblokka. Lyfið er samsett lyf (e. fixed-dose combination) og er lyfseðilsskylt.
Ný lyf fyrir dýr
CircoMax Myco, stungulyf, fleyti fyrir svín. Lyfið inniheldur óvirkjaðar, raðbrigða blendings-svínacircoveirur af tegund 1 sem innihalda ORF2-prótein (e. open reading frame 2) úr svínacircoveirum af tegund 2a og 2b, og verndandi ónæmisvaka úr óvirkjuðum Mycoplasma hyopneumoniae bakteríur af stofni P-5722-3. Lyfið er ætlað til virkrar ónæmingar gegn svínacircoveiru af tegund 2 hjá svínum, til að minnka veirumagn í blóði og eitilvef, veirulosun með saur og skemmdir í eitilvef völdum svínacircoveirusýkingar af tegund 2. Einnig er lyfið ætlað til virkrar ónæmingar gegn Mycoplasma hyopneumoniae hjá svínum til að minnka skemmdir í lungum af völdum Mycoplasma hyopneumoniae sýkingar. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.
Mhyosphere PCV ID, stungulyf, fleyti fyrir svín. Hver 0,2 ml skammtur inniheldur óvirkjaðar raðbrigða Mycoplasma hyopneumoniaecpcpPCV2 af Nexhyon-stofni samþætt við Porcine circovirus gerð 2 (PCV2) prótínveiruhjúp. Lyfið er ætlað til virkrar ónæmingar hjá svínum:
- til að draga úr lungnameinsemdum tengdum einlendri (e. enzootic) lungnabólgu hjá svínum af völdum Mycoplasma hyopneumoniae. Einnig til að draga úr nýgengi þessara meinsemda.
- til að draga úr veirublóðsmiti, veirumagni í lungum og eitlavefjum og lengd veirublóðsmitstímabilsins sem tengist sjúkdómum af völdum Porcine circovirus gerð 2 (PCV2).
- til að draga úr aflífunar-/dánartíðni og tapi á daglegri þyngdaraukningu af völdum Mycoplasma hyopneumoniae og/eða PCV2-tengdra sjúkdóma. Lyfið er frumlyf og lyfseðilsskylt.