Ný lyf á markað í mars

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. mars

Ný lyf á markað 1. mars 2021

Ný lyf fyrir menn

COVID-19 Vaccine AstraZeneca, stungulyf, dreifa. Einn skammtur (0,5 ml) inniheldur simpansa-adenóveirur sem tjá SARS-CoV-2 gadda glýkóprótein (ChAdOx1-s), ekki færri en 2,5 x 108 smiteiningar. Lyfið er ætlað til virkrar bólusetningar gegn COVID-19 af völdum SARS hjá einstaklingum 18 ára og eldri. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Nipruss, innrennslisstofn, lausn. Hver lykja inniheldur 60 mg natríumnítróprússíð tvíhýdrat sem jafngildir 53 mg af vatnsfríu natríumnítróprússíði. Lyfið er notað til meðferðar á bráðum háþrýstingi hjá fullorðnum og við stýrðum lágþrýstingi í skurðaðgerð hjá fullorðnum. Nipruss er ekki ætlað til langtímameðferðar. Lyfið er sjúkrahúslyf, er samheitalyf og er lyfseðilsskylt.

Parapró, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 200 mg af íbúprófeni og 500 mg af parasetamóli. Lyfið er ætlað til þess að lina tímabundið væga eða miðlungsmikla verki sem tengjast mígreni, höfuðverk, tíðaverk, tannverk, gigtar- og vöðvaverkjum, verkjum vegna vægrar bólgu í liðum, einkennum kvefs og flensu, særindum í hálsi og hita. Þetta lyf hentar þeim vel sem þurfa meiri verkjastillingu en parasetamól og íbúprófen veita ein og sér. Lyfið er ætlað til notkunar hjá fullorðnum, 18 ára og eldri. Lyfið er samheitalyf lyfsins Nuromol sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er fáanlegt í lausasölu.

Ný lyf fyrir dýr

Calmafusion, innrennslislyf, lausn fyrir nautgripi, sauðfé og svín. Einn ml inniheldur 380 mg kalsíumglúkónat, 60 mg magnesíumklóríð hexahýdrat og 50 mg bórsýru. Lyfið er ætlað til notkunar í fyrrgreindum dýrategundum sem meðferð við bráðri blóðkalsíumlækkun sem er flókin vegna magnesíumskorts. Lyfið er samheitalyf lyfsins Calciveyxol 38 sem hefur ekki markaðsleyfi á Íslandi. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Ný lyfjaform

Entyvio, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver áfylltur lyfjapenni inniheldur 108 mg af vedólízúmabi í 0,68 ml. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá sjúklingum með sáraristilbólgu eða Crohns-sjúkdómi. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í meltingarsjúkdómum og ónæmissjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Ibrance, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 75 mg eða 100 mg af palbociclibi. Lyfið er ætlað til meðferðar á staðbundnu langt gengnu brjóstakrabbameini eða brjóstakrabbameini með meinvörpum sem hefur jákvæða hormónaviðtaka (hormone receptor (HR)-positive) og neikvæða manna húðþekjuvaxtarþáttaviðtaka 2 (e. human epidermal growth factor receptor 2 (HER2)-negative), í samsettri meðferð með arómatasahemli eða í samsettri meðferð með fulvestranti hjá konum sem hafa áður fengið meðferð með lyfi með verkun á innkirtla. Hjá konum fyrir tíðahvörf eða konum sem eru að nálgast tíðahvörf ætti meðferð með lyfjum með verkun á innkirtla að vera gefin samhliða LHRH-örva-(gulbúskveikjuleysihormónaörva). ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 24. mars 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat