Ný lyf á markað í janúar 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. janúar 2023

Ný lyf á markað í janúar

Ný lyf fyrir menn

Apexxnar stungulyf, dreifa í áfylltri sprautu. Hver 0,5 ml skammtur inniheldur pneumokokkafjölsykrubóluefni af 20 sermisgerðum. Bóluefnið er notað sem virk ónæmisaðgerð gegn ífarandi sýkingum og lungnabólgu af völdum Streptococcus pneumoniae hjá einstaklingum 18 ára og eldri. Apexxnar er lyfseðilsskylt. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila.

Terrosa stungulyf, lausn. Hver 80 míkrólítra skammtur inniheldur 20 míkrógrömm af teriparatídi. Terrosa er ætlað fullorðnum sem eru í aukinni hættu á beinbrotum, þ.m.t. vegna beinþynningar eftir altæka langtímameðferð með barksterum hjá konum og körlum og eftir tíðahvörf hjá konum. Lyfið er samheitalyf Forsteo og er lyfseðilsskylt.

Ný lyf fyrir dýr

Ficoxil tuggutöflur. Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum og inniheldur hver tuggutafla annað hvort 57 mg eða 227 mg af firocoxibi. Ficoxil er ætlað hundum við verkjum og bólgu í tengslum við slitgigt. Einnig er það notað við verkjum og bólgu hjá hundum eftir skurðaðgerð á mjúkvef, bæklunar- eða tannskurðaðgerð. Lyfið er samheitalyf Previcox og er lyfseðilsskylt.

Tribovax vet. stungulyf, dreifa. Hver ml af bóluefni inniheldur lyf til virkrar ónæmingar á sauðfé og nautgripum gegn sjúkdómum sem tengjast sýkingum af völdum Clostridium perfringens af gerð A, C. perfringens af gerð B, C. perfringens af gerð C, C. perfringens af gerð D, Clostridium chauvoei, Clostridium novyi af gerð B, Clostridium septicum, Clostridium sordellii og Clostridium haemolyticum og gegn stífkrampa af völdum Clostridium tetani. Til aðfenginnar (passive) ónæmingar á lömbum og kálfum gegn sýkingum af völdum ofantalinna clostridia-tegunda (nema C. haemolyticum hjá sauðfé). Tribovax vet. er lyfseðilsskylt.

Nýr styrkleiki lyfs fyrir menn

Spikevax bivalent Original/Omicron BA.4-5 stungulyf, ördreifa. Hver ml bóluefnisins inniheldur 50 míkrógrömm af elasomeran og 50 míkrógrömm af davesomeran sem bæði eru COVID-19 mRNA bóluefni. Lyfið er gefið í 0,5 ml skömmtum og er ætlað til virkrar bólusetningar gegn COVID-19 af völdum SARS-CoV-2 veirunnar og Omicron BA.4 og Omicron BA.5 afbrigða hennar hjá einstaklingum 12 ára og eldri sem hafa a.m.k. fengið grunnbólusetningu gegn COVID-19. Bóluefnið er lyfseðilsskylt.

Þegar voru fáanlegar á markaði tvær útgáfur bóluefnisins frá sama markaðsleyfishafa. Spikevax er ætlað sem virk bólusetning gegn COVID-19 af völdum SARS-CoV-2 veirunnar hjá 6 mánaða og eldri. Einnig var Spikevax bivalent Original/Omicron BA.1 þegar á markaði sem notað er til virkar bólusetningar gegn COVID-19 af völdum SARS-CoV-2 veirunnar og Omicron BA.1 afbrigðis hennar hjá einstaklingum 6 ára og eldri sem hafa a.m.k. fengið grunnbólusetningu gegn COVID-19.

Síðast uppfært: 3. janúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat