Ný lyf fyrir menn
Baclofen Sintetica í mænuvökva, 1 ml af innrennslislyfi, lausn inniheldur 2,0 mg af baclofeni. 1 lykja innheldur 10 mg af baclofeni. Lyfið er ætlað sjúklingum með alvarlega langvarandi síbeygjukrampa (e. spasticity) af völdum áverka, MS-sjúkdóms eða annarra sjúkdóma í mænu, sem ekki svara meðferð með baclofeni til inntöku eða öðrum lyfjum við síspennu til inntöku og/eða sem finna fyrir óviðunandi aukaverkunum við virka skammta til inntöku. Lyfið er einnig ætlað sjúklingum á aldrinum 4 til <18 ára með alvarlega langvarandi síbeygjukrampa sem á uppruna í heila eða í mænu (í tengslum við áverka, MS-sjúkdóm eða aðra sjúkdóma í mænu) sem ekki svara meðferð með lyfjum við síspennu til inntöku (þ.m.t. baclofen til inntöku) og/eða sem finna fyrir óviðunandi aukaverkunum við virka skammta til inntöku. Ávísun lyfsins er bundin við sérðfræðinga í taugasjúkdómum og endurhæfingarlækningum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Lioresal og er lyfseðilsskylt.
Dronedarone Teva, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 400 mg af dronedaróni sem hýdróklóríð. Lyfið er ætlað fullorðnum sjúklingum með heilsufar í jafnvægi en tilfallandi eða þrálátt gáttatif, til þess að viðhalda sínustakti eftir að rafvending hefur borið árangur. Af öryggisástæðum skal aðeins ávísa Dronedarone Teva eftir að aðrir meðferðarkostir hafa verið íhugaðir. Dronedarone Teva má ekki gefa sjúklingum með slagbilsvanstarfsemi vinstri slegils (e. left ventricular systolic dysfunction) eða sjúklingum með hjartabilun eða sögu um hjartabilun. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í hjartasjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Multaq og er lyfseðilsskylt.
Kaliumklorid Orifarma (Lyfjaver), ein forðatafla inniheldur 750 mg af kalíumklóríði. Lyfið notað við kalíumskorti og sem fyrirbyggjandi við kalíumskorti í sambandi við meðferð með þvagræsilyfjum. Lyfið er samhliða innflutningur lyfsins Kaliumklorid Orifarma sem er ekki á markaði hérlendis. Lyfið er lyfseðilsskylt.
Ondansetron STADA, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 4 mg eða 8 mg af ondansetroni sem hýdróklóríðdíhýdrat. Fyrir fullorðna er ondansetron ætlað til meðferðar við ógleði og uppköstum af völdum frumuskemmandi krabbameinslyfja og geislameðferðar og sem fyrirbyggjandi við ógleði og uppköstum eftir skurðaðgerðir. Til að meðhöndla ógleði og uppköst eftir skurðaðgerðir er lyfjagjöf með inndælingu ráðlögð. Ondansetron er ætlað til meðferðar við ógleði og uppköstum af völdum krabbameinslyfjameðferðar hjá börnum frá 6 mánaða aldri. Lyfið er samheitalyf lyfsins Zofran og er lyfseðilsskylt.
Nýtt dýralyf
Menbutil, stungulyf, lausn handa nautgripum, svínum, hrossum, kindum og geitum. Hver ml inniheldur 100 mg af Menbútoni. Lyfið er ætlað til þess að örva starfsemi lifrar og meltingarfæra vegna meltingarraskana og vanstarfsemi lifrar. Lyfið er samheitalyf lyfsins Genabiline 100 mg/ml og er lyfseðilsskylt.