Notkun þunglyndislyfja hefur aukist um 40% á síðustu 10 árum. Á árinu 2016 voru 3% þeirra sem fengu þunglyndislyf á Íslandi undir 15 ára aldri. Í þessum samanburði skera Íslendingar sig verulega frá norrænu þjóðunum. Á sjúkrahúsum og öldrunarstofnunum er notkunin tvisvar til þrisvar sinnum meiri en á Norðurlöndum.
Ekkert sérstakt gefur til kynna að þunglyndi sé algengara hér á landi en annars staðar. Skýring á mikilli notkun þunglyndislyfja hér gæti verið fólgin í færri meðferðarúrræðum en þekkist í öðrum löndum.
Hvað er þunglyndi?
Þunglyndi hefur verið skilgreint sem sjúkleg geðlægð þar sem sjúklingurinn hefur misst hæfileikann til að gleðjast yfir því sem áður vakti hjá honum ánægju. Erfitt getur reynst að greina einkenni þunglyndis því sjúklingar reyna iðulega að leyna ástandi sínu sem getur villt um fyrir læknum og tafið fyrir greiningu.
Einkenni þunglyndis geta verið margvísleg, til dæmis minnkandi áhugi eða gleði við venjuleg störf og skemmtun, svefnröskun, þreyta og slen, einbeitingarleysi og í verstu tilvikum hugleiðingar um eða tilraunir til sjálfsvígs.
Samkvæmt upplýsingum á vef Embættis landlæknis er talið að allt að einn af hverjum fimm upplifi depurð eða þunglyndi einhverntíma á lífsleiðinni.
Meðferð og kostnaður
Til þess að vinna bug á þunglyndi er einkum notuð lyfjameðferð og sálfræðimeðferð (hugræn atferlismeðferð) eða blanda af þessu tvennu.
Ekki eru til aðgengileg gögn um fjölda eða aðra mælanlega þætti þeirra sem fá sálfræðimeðferð við þunglyndi en til eru allgóð gögn um notkun lyfja sem ætluð eru til meðferðar á sjúkdómnum.
Lyfjanotkun á Íslandi er yfirleitt undir meðaltali OECD-landa en þegar kemur að þunglyndislyfjum er notkunin mest hér svo eftir er tekið. Á einum áratug hefur sala lyfja í þessum flokki aukist um meira en 40% miðað við skilgreinda dagskammta (DDD/íbúa/dag).
Á árinu 2016 seldust 16,6 milljónir skilgreindra dagskammta (DDD) af þunglyndislyfjum fyrir rösklega 700 milljónir króna á smásöluverði með virðisaukaskatti. Kostnaður sjúkratrygginga nam um 384 milljónum og kostnaður heilbrigðisstofnana var um 38 milljónir. Tæplega 40 þúsund sjúklingar greiddu yfir 300 milljónir króna fyrir þessi lyf úr eigin vasa. Ætla má að virðisaukaskattur af þessum viðskiptum hafi numið um 130 milljónum króna.
Samanburður við önnur lönd
Frá aldamótum hefur notkun þunglyndislyfja vaxið mikið á Íslandi borið saman við önnur lönd. Víða hefur hún aukist talsvert, t.d. í Danmörku, Ástralíu, Svíþjóð, Bretlandi, Þýskalandi og fleiri löndum líkt og hér.
Notkun þessa lyfjaflokks á Íslandi er sú mesta meðal OECD-landa en notkun allra Norðurlanda, að Noregi undanskyldum, er yfir meðaltalsnotkun OECD-landa.
Þó svo að notkun þunglyndislyfja á Íslandi sé mikil í samanburði við önnur lönd er ekki rétt að álykta út frá því einu að tíðni þunglyndissjúkdóma sé hærri hér en annars staðar í heiminum. Ekki er heldur hægt að álykta að geðheilbrigðisþjónusta hér sé betri en í öðrum löndum. Líklegt er þó að meðferðarúrræði hér á landi séu færri en í mörgum öðrum löndum, hugsanlega vegna kostnaðar þar sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga er ekki sambærileg við það sem þekkist í ýmsum öðrum löndum.
Ef litið er til annars samanburðar þá er notkun þunglyndislyfja á heilbrigðisstofnunum meiri hér en á hinum Norðurlöndunum. Á árinu 2016 voru 5,7% allra þunglyndislyfja sem notuð voru á Íslandi notuð á heilbrigðisstofnunum. Þetta hlutfall er verulega hærra hér en á hinum Norðurlöndunum.
Enn eitt sjónarhorn á notkun þessa lyfjaflokks er notkun meðal barna. Á árinu 2016 voru 3,0% þeirra sem fengu þunglyndislyf á Íslandi undir 15 ára aldri. Í þessum samanburði skera Íslendingar sig verulega frá norrænu þjóðunum.
Fjöldi af hverjum 1.000 í aldursflokki sem fengið hafa a.m.k. einu sinni ávísað þunglyndislyfjum.
2016 | Danmörk | Finnland | Ísland | Noregur | Svíþjóð | |||||
Aldur | Drengir | Stúlkur | Drengir | Stúlkur | Drengir | Stúlkur | Drengir | Stúlkur | Drengir | Stúlkur |
0-14 | 1 | 1 | 2 | 3 | 22 | 19 | 1 | 1 | 3 | 3 |
Af undirflokkum þunglyndislyfja vega þyngst sértækir serótónín-endurupptökuhemlar (N06AB) og lyf í flokknum önnur þunglyndislyf (N06AX) en ósértækir mónóamín-endurupptökuhemlar og mónóamínoxídasa-hemlar, tegund A eru á undanhaldi. Athygli vekur að á einum áratug eykst notkun þunglyndislyfja á Íslandi, Svíþjóð og Álandseyjum en úr henni dregur eða hún stendur í stað annars staðar á Norðurlöndum og að notkun hér er yfir 40% meiri en í Svíþjóð sem kemur næst af Norðurlöndum. Á Íslandi nemur aukningin yfir 40% á einum áratug.
Sala þunglyndislyfja (ATC-flokkur N06A) mælt í DDD/1000 íbúa/dag á árunum 2005 til 2016
Heimild: Health statistics for the Nordic Countries 2017
Ályktun
Fyrir kemur að lyf séu notuð í öðrum tilgangi en þeim er ætlað samkvæmt leiðbeiningum (SmPC). Dæmi eru um að þunglyndislyf séu notuð við öðru sjúklegu ástandi en þunglyndi. Þetta skekkir myndina þegar verið er áætla lyfjameðferð við þunglyndi. En þar sem ekkert sérstakt gefur til kynna að þunglyndi sé algengara hér en annars staðar, og önnur notkun á þessum lyfjum sé meiri hér en annars staðar gæti skýring á mikilli notkun verið fólgin í mismunandi meðferðarúrræðum, þ.e. að algengara sé að meðhöndla þunglyndi með lyfjum á Íslandi fremur en öðrum meðferðarúrræðum. Skýringin á þessu gæti því falist í greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Hér greiða sjúkratryggingar niður lyf en ekki sáfræðiþjónustu.
Þau gögn sem hér hafa verið sett fram segja ekkert annað en að notkun þunglyndislyfja er meiri hér á landi en annars staðar. Þau segja ekkert til um gæði heilbrigðisþjónustu eða geðheilbrigði þjóðarinnar. Til þess að komast að því hvort hér sé um sóun á fjármunum að ræða eða vandaða heilbrigðisþjónustu þarf að mæla fleiri þætti en lyfjamagn og kostnað. Það er vel þess virði fyrir útgjaldalið sem nemur yfir 700 milljónum króna á ári.