Mikilvægt er að þeir sem hafa greinst með COVID-19 og eru með einkenni fylgi tilmælum Embættis landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Lyfjastofnun mælist eindregið til þess að COVID-19 smitaðir einstaklingar með einkenni útvegi öðrum einstaklingi umboð til að sækja lyf fyrir sig.
Ákvörðun tekin að beiðni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Þar sem mikið mæðir á heilbrigðiskerfinu vegna COVID-19 um þessar mundir, var tekin sú ákvörðun að tímabundið mættu sjúklingar með COVID-19 kaupa Parkódín til hóstastillingar án þess að framvísa lyfjaávísun. Þetta var gert að beiðni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Reglur varðandi þessa tímabundnu undanþágu eru nú sem hér segir:
- Selja má þeim einstaklingum, sem geta framvísað vottorði um COVID-19 smit úr Heilsuveru, Parkódín án þess að fyrir liggi lyfjaávísun. Vottorð um smit má ekki vera eldra en 10 daga gamalt. Aldurstakmark er 18 ár.
- Notkun Parkódíns í þessum tilvikum er bundin við langvarandi þurran hósta vegna COVID-19. Lyfjafræðingar í apótekum veita nánari upplýsingar um lyfið og notkun þess.
- Einungis má selja hverjum einstaklingi 1 pakkningu af lyfinu Parkódín 500 mg/10 mg, 10 stk., það tíu daga tímabil frá því COVID-19 vottorðið var gefið út.
- Unnið er að breytingu á vinnslukerfi lyfjaafgreiðslu í þá veru að lyfjafræðingar apótekanna geti séð fyrri Parkódín-afgreiðslur til sjúklings, jafnvel þótt lyfjaávísunar sé ekki þörf.
- Heimild þessi gildir til 18. apríl 2022
Sæki annar aðili en sjúklingurinn sjálfur þarf viðkomandi að:
a) hafa gilt umboð til að sækja lyf fyrir viðkomandi. Vottorðið er veitt í gegnum Heilsuveru.
b) hafa meðferðis vottorð um staðfest COVID-19 smit þess aðila sem sótt er fyrir. Vottorðið má finna í Heilsuveru og má ekki vera eldra en 10 daga gamalt.
Smitaðir einstaklingar með einkenni mæti ekki í apótek
Samkvæmt tilmælum sóttvarnayfirvalda er fólki sem greinist með COVID-19 og er með öndunarfæraeinkenni og hita, beðið um að halda sig til hlés í a.m.k. fimm daga frá greiningu. Þeir sem þetta á við um eru beðnir að mæta ekki í apótek, heldur senda fyrir sig aðstandanda með gilt umboð til að sækja lyf. Þannig þarf viðkomandi að framvísa í apótekinu bæði umboði, og vottorði um smit þess sem lyfsins þarfnast.
Rofnar pakkningar
Parkódín 500 mg/10 mg töflur eru ófáanlegar í 10 stykkja pakkningum hjá heildsala um þessar mundir en hugsanlega til í einhverjum apótekum. Í slíkum tilvikum, til að koma í veg fyrir áhrif lyfjaskorts, er starfsfólki apóteka heimilt að rjúfa pakkningar lyfja, skipta í smærri einingar eða umpakka þeim við afgreiðslu. Því gætu lyfjanotendur orðið varir við að fá lyfið afgreitt í óhefðbundnum umbúðum.
Allar nauðsynlegar upplýsingar um lyfið, s.s. heiti lyfsins, styrkleiki, afhent magn, lotunúmer og fyrningardagur þess skulu vera aðgengilegar lyfjanotendum á þeim umbúðum sem lyfið er afhent í. Afrit af fylgiseðli skal afhent samhliða. Þá skal bent á að fylgiseðill lyfsins er aðgengilegur í sérlyfjaskrá.