Framleiðsluþing Samtaka iðnaðarins fór fram í Hörpu í síðustu viku. Þar var fjallað um eftirlit með iðnstarfsemi, og kynnt greining SI á könnun þar sem spurt var um mat stjórnenda iðnfyrirtækja á frammistöðu eftirlitsstofnana. Skemmst er frá því að segja að Lyfjastofnun kom prýðilega út í samanburði við þrettán aðrar stofnanir, er í fyrsta sæti þegar í myndriti er raðað þannig að hæsta einkunn fái mest vægi*, en 50% aðspurðra gáfu eftirlitsvinnu stofnunarinnar einkunnina „góð“.
Eftirlitshlutverk
Lyfjastofnun fagnar umræðu um eftirlit opinberra stofnana enda er eftirlitshlutverkið veigamikill þáttur í starfseminni og er skilgreint í lögum um lyf og lækningatæki. Eftirlitið felst m.a. í því að fylgjast með að farið sé eftir reglum og stöðlum, í því sem lýtur að framleiðslu lyfja, starfsemi apóteka og lyfjafyrirtækja, eftirliti með framboði lyfja, lyfjaauglýsingum, umsýslu lyfja hjá heilbrigðisstofnunum og eftirliti með lækningatækjum, svo eitthvað sé nefnt.
Fjármögnun og verkþættir
Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum er fjármögnun Lyfjastofnunar tvíþætt. Annars vegar er um að ræða innheimt gjöld samkvæmt gjaldskrá fyrir veitta þjónustu sem nemur 70% af tekjum stofnunarinnar á ársgrundvelli. Hins vegar framlag úr ríkissjóði, um 30%, sem ætlað er að standa undir öðrum verkþáttum, m.a. stórum hluta eftirlitsverkefna.
Eftirlitsverkefnum forgangsraðað
Með samþykkt fjárlaga í desember sl. varð ljóst að framlag úr ríkissjóði myndi minnka frá fyrra ári og hefur það þá dregist saman um tæp 15% á tveimur árum. Því blasir við að draga þarf saman seglin í þeim verkefnum sem falla þar undir og leiðir það til þess að eftirlitsverkefnum þarf að forgangsraða. Hluta eftirlitsverkefna er unnt að vinna út frá áhættumati og leggja áherslu á þá þætti sem mestu máli skipta; þetta verður gert í samráði við hagsmunaaðila.