Kynsjúkdómar og lyf við þeim

Fjölmörg lyf eru til við kynsjúkdómum og flest þeirra eru markaðssett á Íslandi.

Til eru yfir 30 kynsjúkdómar en þeir algengustu á Íslandi eru kynfæravörtur, kynfæraáblástur og klamydía samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu. Aðrir kynsjúkdómar, sem eru ekki eins útbreiddir, eru t.d. lekandi, sárasótt og HIV. Fjölmörg lyf eru til við kynsjúkdómum.

Ársskýrsla sóttvarna

Nýlega birti embætti landlæknis ársskýrslu sóttvarna fyrir árið 2022.

Samkvæmt skýrslunni var klamydía algengasti kynsjúkdómurinn sem greindist á Íslandi á því ári og jafnframt sá eini sem greindist í meira mæli meðal kvenna en karla. Svipaður fjöldi greindist með klamydíu og undanfarin ár eða 1.861.

Aukning varð í greiningum á lekanda, 158 einstaklingar greindust á árinu sem er mesti fjöldi sem greinst hefur hérlendis í rúmlega 30 ár. Ekki hafa komið fram skýringar á þessari fjölgun en hana má einnig sjá í öðrum Evrópulöndum.

Kynsjúkdómar sem hafa smitast með veirum eru oftast ólæknandi og er einungis hægt að draga úr einkennum og hindra framgang þeirra tímabundið. Þá kynsjúkdóma sem smitast með bakteríum eða lúsum er oftast hægt að lækna með lyfjum.

Einstaklingur myndar ekki ónæmi gegn kynsjúkdómi sem hann hefur áður fengið meðferð við, þannig er hægt að fá sama sjúkdóm aftur og aftur. Jafnframt er hægt að fá fleiri en einn kynsjúkdóm samtímis.

Mikilvægt að kynna sér upplýsingar um lyf í fylgiseðli

Hér á eftir fer samantekt um þau lyf sem markaðssett eru á Íslandi og eru notuð við kynsjúkdómum. Vakin er athygli á að fylgiseðill lyfjanna er aðgengilegur í sérlyfjaskrá. Mjög mikilvægt er að kynna sér vel efni fylgiseðla lyfja því þar er að finna upplýsingar um rétta notkun lyfsins, auk upplýsinga sem geta komið í veg fyrir óþarfa eða skaðlega notkun, sem og margt annað sem stuðlar að öryggi við notkun þess.

Í undantekningartilfellum getur reynst nauðsynlegt að ávísa lyfjum sem ekki eru markaðssett hérlendis með svokallaðri undanþáguávísun. Fylgiseðlar undanþágulyfja eru ekki á íslensku en læknir sem ávísar undanþágulyfi gefur nauðsynlegar upplýsingar um lyfið, s.s. notkunarfyrirmæli og þekktar hugsanlegar aukaverkanir.

Bent er á að alltaf er hægt að leita ráðlegginga um lyf hjá lyfjafræðingum og lyfjatæknum í apótekum.

Klamydía

Klamydía orsakast af bakteríunni Chlamydia trachomatis. Flest smit verða við beina snertingu slímhúða við kynmök (um leggöng, endaþarm eða munn), að auki getur barn smitast við fæðingu um sýktan fæðingarveg móður.

Helstu fylgikvillar klamydíusýkingar hjá konum eru eggjaleiðara- og eggjastokksbólga með eða án ígerðar, legslímubólga, lífhimnubólga, ófrjósemi og utanlegsfóstur. Klamydía er talin ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna.

Helstu fylgikvillar klamydíusýkingar hjá körlum er eistnalyppu- og eistnabólga.

  • Karlar: oft einkennalausir en geta fengið útferð, óþægindi eða sviða við þvaglát.
    Óþægindi í þvagrás er algengasta einkennið.
  • Konur: mjög oft einkennalausar en geta upplifað milliblæðingar, blæðingar eftir samfarir, útferð, verki í grindarholi eða þvagfæraeinkenni með sviða við þvaglát eða tíðum þvaglátum
  • Klamydía getur líka valdið sýkingu í hálsi og endaþarmi, sýkingu í augum, sýkingu nýbura eða ífarandi sýkingu.

Kynfæravörtur og kynfæraáblástur

Bæði kynfæravörtur og kynfæraáblástur geta valdið töluverðum óþægindum þegar sjúkdómarnir blossa upp og erfitt getur verið að meðhöndla þá. Báðir eru þeir af völdum veira og því ekki hægt að læknast af þeim heldur einungis meðhöndla einkennin.

Kynfæraáblástur er sýking af völdum veirunnar herpes simplex, tegund 2 en kynfæravörtur verða vegna sýkingar af human papilloma virus. Um 100 gerðir eru til af human papilloma virus og hafa sumar þeirra verið tengdar við leghálskrabbamein. Aðeins 2 gerðir valda vörtum sem birtast á slímhúð og húð.

Kynfæraáblástur smitast einungis með óvörðu kynlífi við sýktan einstakling með einkenni sýkingarinnar en kynfæravörtur smitast með snertingu húðar eða slímhúðar við sýkta húð eða slímhúð jafnvel þó að einkenni séu ekki til staðar.

Liðið getur langur tími frá smiti og þar til einkenni koma fram, jafnvel mánuðir.

  • Litlar blöðrur eða sár á kynfærum
  • Dofi, brunatilfinning eða kláði á kynfærum
  • Sársauki við þvaglát
  • Óvenjuleg útferð hjá konum

  • Vörtur á ytri kynfærum og við endaþarmsop
  • Kláði og erting
  • Sársauki við samfarir hjá konum
  • Óþægindi við þvaglát

Árið 2011 var byrjað bólusetja stúlkur við 12 ára aldur gegn HPV veirunni til draga úr líkum á kynfæravörtum og leghálskrabbameini. Núorðið stendur öllum 12 ára börnum til boða bólusetninguna, óháð kyni

  • Papillomivirus mannabóluefni, gerð 16 og 18 
    Cervarix 
  • HPV L1 prótein af gerð 6, 11, 16, 18, 31, 33, 45, 52 og 58  
    Gardasil 

Lekandi

Lekandi orskast af bakteríunni Neisseria gonorrhoeae. Smit verður oftast við beina snertingu slímhúða við kynmök og getur valdið sýkingu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi og hálsi. Bakterían getur einnig borist með sýktum vessa í augu og því getur barn smitast við fæðingu um sýktan fæðingarveg móður.

Helstu fylgikvillar lekandasýkingar hjá körlum eru eistnalyppu- og eistnabólga eða blöðruhálskirtilsbólga og hjá konum eggjaleiðara- og eggjastokksbólga.

Bakterían getur dreift sér víða um líkamann og valdið skaða en auk þess getur lekandi valdið ófrjósemi.

  • Karlar: bráð þvagrásarbólga með graftarkenndri útferð úr þvagrás og sviði eða óþægindi við þvaglát
  • Konur: oft einkennalausar en kunna að fá einkenni vegna leghálsbólgu sem getur valdið breyttri og aukinni útferð, kviðverkjum um neðanverðan kvið og milliblæðingum, einnig geta konur fengið einkenni þvagrásarbólgu sem geta valdið sviða eða óþægindum við þvaglát
  • Lekandi getur einnig valdið tárubólgu, sýkingu í endaþarmi og hálsi.

Sárasótt

Sárasótt orsakast af bakteríunni Treponema pallidum og skiptist í áunna og meðfædda sárasótt. Smit verða milli manna með kynmökum, við blóðsmit og frá móður til fósturs. Áunnin sárasótt skiptist í snemmsárasótt og síðsárasótt.

Sjúkdómurinn getur verið alvarlegur og lífshættulegur en mögulegt er að vinna á honum með sýklalyfjum.

  • Snemmsárasótt, fyrsta stig: eymslalaust sár sem kemur oftast á kynfæri en getur komið við endaþarm eða í munn. Eymslalausar eitlastækkanir geta fylgt.
  • Snemmsárasótt, annað stig: brúnrauðar húðbreytingar, oft mest áberandi á bol en einnig í lófum og iljum. Mjög smitandi slímhúðarbreytingar eru einnig algengar. Einnig getur smitaður einstaklingur upplifað veikindi með hita, eitlastækkunum, lifrarbólgu, miltisstækkun, liðbólgum, taugaeinkennum og augneinkennum.
  • Aðrar gerðir sárasóttar þarf sérstakar greiningaraðferðir til að meta.

HIV

HIV er kynsjúkdómur sem orsakast af human immunodeficiency virus. Algengast er að smit verðiur við beina snertingu við kynmök (um leggöng, endaþarm eða munn). Aðrar smitleiðir eru með smituðu blóði eða líffærum, við blóðblöndun t.a.m. með menguðum nálum en börn geta einnig smitast í móðurkviði yfir fylgju eða í fæðingu.

Almennt hefur dregið úr nýgengi HIV í heiminum á undanförnum árum en fjöldi einstaklinga sem lifir með HIV aukist. Það skýrist m.a. af því að meðferðir við HIV hafa reynst árangursríkar við að draga úr smithættu auk þess að aðgengi hefur aukist að HIV-lyfjum sem tekin eru í forvarnarskyni.

HIV er ólæknandi og fylgir því þeim sem smitast alla ævi.

  • Einkennalaus í upphafi hjá hluta smitaðra en einkenni geta verið hiti, slappleiki, eitlastækkanir og nætursviti
  • Seinna geta komið fram eitlastækkanir í hálsi, þruska í munni, koki eða vélinda auk blóðflögufækkunar. Svæsin endurvakning á hlaupabóluveiru í formi ristils getur verið merki um veikleika í ónæmiskerfi einstaklings
  • Þegar ónæmiskerfið veikist frekar fer að bera á tækifærissýkingum og nokkrum tegundum krabbameina

Samsettar meðferðir geta m.a. innihaldið:

Síðast uppfært: 19. september 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat