Heimild til að breyta lyfjaávísun læknis í ávísun á undanþágulyf

Eftir tilkomu nýrra lyfjalaga getur Lyfjastofnun í sérstökum tilvikum heimilað lyfjafræðingi í apóteki að breyta lyfjaávísun læknis í ávísun á undanþágulyf þegar skortur er á markaðssettu lyfi. Þessu úrræði var nýlega beitt vegna lyfsins Norgesic

Eins og fram hefur komið getur Lyfjastofnun heimilað lyfjafræðingum apóteka að breyta lyfjaávísun læknis á tiltekið lyf, þannig að það gildi fyrir það undanþágulyf sem búið er að útvega. Þetta er eitt af þeim úrræðum sem stofnunin getur beitt til að draga úr áhrifum lyfjaskorts.

Í sérstökum tilvikum

Úrræðið er einungis notað í sérstökum tilvikum, þegar ljóst þykir að án aðgerða kæmi upp íþyngjandi staða bæði fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmenn.

Heimildina um að breyta lyfjaávísun læknis er að finna í 52. grein lyfjalaga, annarri málsgrein:

„ Í sérstökum tilvikum, þegar skortur er á markaðssettu lyfi, getur Lyfjastofnun heimilað lyfjafræðingi að breyta lyfjaávísun í undanþágulyf, enda sé slík heimild veitt að undangengnu mati stofnunarinnar á öryggi við slíka breytingu.“

Þetta úrræði hefur í för með sér aukið hagræði og mikinn tímasparnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk og lyfjanotendur. Til þess hefur verið gripið 19 sinnum það sem af er ári, vegna 9 lyfja.

Úrræðið nýtt vegna skorts á Norgesic

Ákvæðinu var nýlega beitt vegna skorts á skráða lyfinu Norgesic. Í því tilviki var lyfjafræðingum heimilað að breyta lyfjaávísunum þannig að afgreiða mætti óskráð lyf með sama heiti. Óskráða lyfið er í grískum umbúðum með fylgiseðli á grísku, og því þótti sérstök ástæða til að beina því til lyfjafræðinga að veita sjúklingum greinargóðar upplýsingar um notkun lyfsins. Enn fremur að setja á pakkningarnar auka miða þar sem fram kemur að fylgiseðill sé á grísku, en benda jafnframt notendum á að hægt sé að nálgast fylgiseðil á íslensku fyrir skráða lyfið á vefnum serlyfjaskra.is.

Síðast uppfært: 25. október 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat