Gigtarlyf í flýtimati sem meðferð við COVID-19

Lyfið heitir RoActemra og hefur verið í notkun í um áratug

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur hafið mat á því hvort RoActemra (tocilizumab) nýtist sem meðferð við alvarlegum COVID-19 sjúkdómi. Þá fyrst og fremst hjá fullorðnum sjúklingum sem liggja á sjúkrahúsi, þurfa súrefnisgjöf eða eru í öndunarvél, og eru á sterameðferð.

RoActemra hefur nýst við meðhöndlun gigtar og annarra bólgusjúkdóma, og því talið líklegt að það gagnist við að hemja bólgur sem jafnan fylgja alvarlegum COVID-19 sjúkdómi. Virkni lyfsins byggir á því að stöðva framgang interleukin-6, frumuboðefnis sem ónæmiskerfi líkamans framleiðir í bólgusvari.

Gögnin sem metin verða

Sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) mun meta gögn sem bárust með umsókn um nýja ábendingu lyfsins. Þar á meðal eru niðurstöður fjögurra stórra slembiraðaðra rannsókna sem varða COVID-19 sjúklinga á sjúkrahúsi, til að meta hvort þeim sem fengu RoActemra farnaðist betur en hinum sem ekki fengu, og þar með hvort lyfið fái viðbótarábendingu um virkni sem meðferð við COVID-19.

EMA mun miðla uppslýsingum um niðurstöðu matsins um leið og það liggur fyrir, en reiknað er með að það verði um miðjan október.

Frétt EMA um flýtimat á RoActemra

Síðast uppfært: 25. ágúst 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat