Í vor var ákveðið að bjóða völdum hópi gesta í heimsókn með haustinu, til að skoða aðsetur Lyfjastofnunar, húsnæðið að Vínlandsleið 14, eftir gagngerar endurbætur. Annars vegar heilbrigðisráðherra og ráðuneytisfólki, og þeim stofnunum og félögum sem Lyfjastofnun hefur hvað mest samskipti við, hins vegar fyrrum starfsfólki eldra en 65 ára.
Gestaboðin voru haldin dagana 30. og 31. ágúst sl. Í báðum tilvikum fór fyrst fram kynning á hvernig staðið var að því umfangsmikla verkefni sem endurbæturnar voru; undirbúningur, tiltekt, hópaskipting starfsmanna í viðveru eftir að framkvæmdir hófust, og aðlögun að nýja húsnæðinu. Gestir fengu síðan leiðsögn um húsnæðið og í lokin var boðið upp á kaffi og meðlæti.
Gestir reyndust áhugasamir um framkvæmdina, fannst sem vel hefði tekist til með endurbæturnar, og gerðu góðan róm að heimboðinu.