Fundir lyfjaöryggisnefndar EMA í september og október

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) fundaði dagana 2.-5. september og 30. september-3. október sl.

Septemberfundur PRAC

Að loknu endurmati á verkjalyfjum sem innihalda metamízól, ákvað lyfjaöruggisnefndin að mæla með því að lyfjatextar verði uppfærðir með ákveðnari varnaðarorðum um hættu á kyrningaþurrð (e. agranulocytosis).

Vitað var að í sjaldgæfum tilvikum gæti notkun lyfsins valdið kyrningaþurrð, sem lýsir sér í skyndilegri og mikilli fækkun hvítra blóðkorna, s.k. kyrninga (e. granulocytes). Slíkt getur leitt til alvarlegra sýkinga sem geta reynst banvænar. Öryggisviðmið vegna notkunar lyfsins eru að einhverju leyti mismunandi eftir löndum, og því var niðurstaða PRAC að kveða mætti fastar að orði til að koma í veg fyrir alvarleg tilvik. Bréf var sent út til heilbrigðisstarfsmanna (DHPC) í þeim löndum þar sem lyfið er á markaði, og því beint til þeirra að vekja athygli sjúklinga á fyrstu einkennum kyrningaþurrðar og að bregðast strax við slíkum einkennum. -Þetta lyf er ekki í notkun á Íslandi.

Þá vill PRAC að loknum septemberfundinum vekja athygli á hættu sem fylgir notkun medroxýprógesterón asetat í háum skömmtum, en þar er um að ræða auknar líkur á heilahimnuæxli, þó aðallega eftir langvarandi notkun. Upplýsingar um öll lyf sem innihalda medroxýprógesterón asetat verða því uppfærðar, og heilahimnuæxli verður bætt við sem aukaverkun í tíðniflokknum „Tíðni ekki þekkt“. -Eitt lyf fyrir mannfólk sem inniheldur medroxýprógesterón asetat er á markaði á Íslandi, Depo-Provera. Auk þess er á markaði hérlendis dýralyfið Perlutex vet., sömuleiðis með virka efninu medroxýprógesterón asetat. -Gefið hefur verið út bréf til heilbrigðisstarfsmanna (DHPC) til að vekja athygli á áhættu á fyrrnefndri aukaverkun.

Októberfundur PRAC

Á októberfundi lyfjaöryggisnefndarinnar hófst vinna við að endurmeta gögn um lyf sem innihalda fínasteríð og dútasteríð. Bæði lyfin eru ætluð til notkunar við vanda karlmanna sem eru með stækkaðan blöðruhálskirtil; bæði gera þau að verkum að blöðruhálskirtillinn minnkar. Fínasteríð er einnig notað gegn hármissi hjá yngri karlmönnum. -Lyfin eru endurmetin vegna vísbendinga um að þau gætu í einhverjum tilvikum valdið sjálfsskaðandi hegðun og sjálfsvígshugsunum. -Nokkur lyf með hvoru virku efni eru á markaði á Íslandi.

PRAC ræddi einnig bréf til heilbrigðisstarfsmanna (DHPC) til að vekja athygli á að stærð og kvarðar lyfjasprautu sem fylgja flogaveikilyfjunum Keppra og Levetiracetam UCB 100 mg/ml hafa breyst. Þetta vökvaform lyfsins er ætlað börnum 6 mánaða til fjögurra ára. Í stað 3 ml lyfjasprautunnar með kvarða fyrir hvern 0,1 ml, kemur 5 ml. sprauta með 0,25 ml kvarða til viðbótar við 0,1 ml. Fræða þarf umönnunaraðila barna sem þurfa á lyfjunum að halda og þeim leiðbeint með hvernig mæla skal réttan skammt í hverju tilviki. -DHPC bréfið verður nú sent sérfræðinganefnd um lyf fyrir menn (CHMP), og að umfjöllun þar lokinni sent heilbrigðisstarsmönnum. -Keppra er á markaði hérlendis.

Síðast uppfært: 18. október 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat