Júnífundur PRAC
Meðal þess sem PRAC tók fyrir á fundinum var endurmat verkjalyfja sem innihalda metamízól. Vitað var að í sjaldgæfum tilvikum gæti notkun lyfsins valdið kyrningaþurrð (e. agranulocytosis), sem lýsir sér í skyndilegri og mikilli fækkun hvítra blóðkorna, s.k. kyrninga (e. granulocytes). Slíkt getur leitt til alvarlegra sýkinga sem geta reynst banvænar. Öryggisviðmið vegna notkunar lyfsins eru að einhverju leyti mismunandi eftir löndum, og PRAC telur hugsanlegt að kveða mætti fastar að orði til að koma í veg fyrir alvarleg tilvik. Því er lyfið tekið til endurmats. Þetta lyf er ekki í notkun á Íslandi.
Þá ályktaði sérfræðinganefndin að áhættuþáttur finnist í CAR-T-frumulyfjum (e. chimeric antigen receptor T-cell medicines). Áhættan felst í því að lyfin geta í einhverjum tilvikum valdið krabbameini í þeirri tegund hvítra blóðkorna sem nefnast T-frumur, og þar með af öðrum uppruna en það krabbamein sem lyfinu var beint gegn. Því verða varnaðarorð í textum lyfjanna uppfærð skv. þessum niðurstöðum og bréfi til heilbrigðisstarfsmanna verður dreift. -Lyf úr þessum flokki hafa ekki verið á markaði á Íslandi.
Júlífundur PRAC
Meðal þess sem PRAC sendi frá sér eftir júlífundinn voru tilmæli í tengslum við sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyf, og varnaðarorð vegna notkunar lyfs við MS-sjúkdómnum.
Ef notendur GLP-1 lyfja þurfa á svæfingu að halda
Sérfræðinganefndin beinir því til notenda sykursýkis- og þyngdarstjórnunarlyfja í flokki GLP-1 viðtakaörva – þar á meðal eru lyf eins og Ozempic, Wegovy, Rybelsus, Saxenda og Victoza - að gera heilbrigðisstarfsfólki viðvart um þá lyfjanotkun, ef fyrir dyrum er aðgerð sem krefst svæfingar. Þótt rannsókn PRAC staðfesti ekki orsakasamhengi vill sérfræðinganefndin senda frá sér þessi tilmæli, þar sem auknar líkur gætu verið á ásvelgingu (e. aspiration) hjá notendum GLP-1 lyfja, sem annars er frekar sjaldgæft fyrirbrigði í svæfingu. Þessar auknu líkur orsakast af því að GLP-1 lyf hægja á því ferli að maginn tæmist og því meiri líkur á ásvelgingu hjá þeim sem taka slík lyf en almennt gerist. -Ásvelging er það þegar matur, magainnihald eða vökvi berst ofan í loftveginn við innöndun.
Glatíramerasetat (glatiramer acetat)
Notkun þessa lyfs, sem gefið er við versnandi MS sjúkdómi, gæti framkallað bráðaofnæmi stuttu eftir að lyfinu hefur verið sprautað í líkamann, jafnvel árum eftir að meðferð með því hófst. PRAC hefur komist að þeirri niðurstöðu að orsakasamband sé þarna á milli eftir að hafa yfirfarið öll fáanleg gögn. Tilkynnt hefur verið um andlát af þessum sökum. Venjubundin viðbrögð við inndælingu gætu dulið einkenni bráðaofnæmis og því skiptir máli að vera vel á verði.
PRAC hefur ákveðið að bréf skuli sent til heilbrigðisstarfsmanna (DHPC) til að vekja athygli á áhættunni sem fylgt getur notkun lyfsins. -Tvö lyf sem innihalda virka efnið glatíramerasetat eru á markaði á Íslandi, Copaxone og Remurel.
Nýr formaður PRAC tekur við á næsta fundi
Júlífundur PRAC var sá síðasti sem Sabine Straus stýrði. Hún hefur verið formaður sérfræðinganefndarinnar í sex ár. Við af henni tekur Ulla Wändel Liminga, sem er sérfræðingur á sviði líflyfja- og eiturefnafræði, og lyfjagát. Hún hefur verið fulltrúi í PRAC frá árinu 2012.