Franska lyfjastofnunin, sem einnig fer með málefni
lækningatækja (ANSM) hefur gefið út tímabundnar leiðbeiningar til heilbrigðisstarfsfólks í
Frakklandi þar sem það er beðið að sýna varkárni við val á brjóstapúðum til
ígræðslu. Einnig eru læknar minntir
á skyldu sína að tilkynna sjúklingum um alla áhættu sem fylgir slíkum
ígræðslum, áður en inngripið á sér stað. Tilefnið er nýleg rannsókn sem bendir
til þess að tengsl gætu verið á milli ígræddra brjóstapúða og sjaldgæfrar
tegundar eitilfrumukrabbameins, BI-ALCL, sem á ensku kallast breast implant
associated anaplastic large cell lymphoma.
Of snemmt að draga ályktanir
Það er mat Lyfjastofnunar
að svo stöddu að of snemmt sé að draga ályktanir og gefa út sambærilegar
leiðbeiningar til íslenskra lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Lyfjastofnun mun áfram fylgjast náið
með framvindu málsins í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld í Evrópu.
Mikilvægt að tilkynna óæskileg atvik
Atvikatilkynningar skipa stóran
sess í öflun þekkingar um öryggi lækningatækja. Þess vegna undirstrikar
Lyfjastofnun mikilvægi þess að atvik og aukaverkanir í tengslum við notkun
lækningatækja séu tilkynnt til Lyfjastofnunar. Tilkynna má
slík atvik á vef Lyfjastofnunar.
Þá skal á það
bent að samkvæmt lögum um lækningatæki ber öllum þeim sem framleiða, selja,
eiga eða nota lækningatæki og vita um frávik, galla eða skort á virkni sem
kynni að valda eða hefur valdið heilsutjóni eða dauðsfalli, skylda til að tilkynna
Lyfjastofnun um slíkt.
Lyfjastofnun hafa
ekki borist tilkynningar um atvik sem tengjast ígræðslu brjóstapúða hér á
landi.
Ef einstaklingar
með ígrædda brjóstapúða hafa spurningar varðandi málið eða eru áhyggjufullir leggur
Lyfjastofnun ríka áherslu á að leitað sé til læknis, helst þess læknis sem
framkvæmdi ígræðsluna.