Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stefnir að endurskoðun þeirrar heildarlöggjafar sambandsins sem fjallar um lyf fyrir menn. Þessi endurskoðun er í samræmi við lyfjastefnu sambandsins, en er einnig hugsuð sem tækifæri til að draga lærdóm af því hvernig tekist var á við COVID-19 faraldurinn. Markmiðið er að tryggja löggjöf sem horfir til framtíðar og gerir jafnframt kleyft að takast fumlaust á við alvarlegar áskoranir á borð við heimsfaraldur.
Það sem sérstaklega verður horft til við endurskoðunina:
- tryggja aðgengi að lyfjum á viðráðanlegu verði
- hlúa að nýsköpun, þar á meðal í því sem varðar læknisfræðilega þörf sem ekki hefur verið mætt
- efla öryggi í því sem snýr að lyfjaframboði
- tryggja aðlögun að nýjustu tækni og vísindum
- draga úr skriffinnsku og auka sveigjanleika
Kallað eftir áliti almennings
Stofnanir, fyrirtæki og samtök sem tengjast lyfjamálum hafa þegar sent hugmyndir sínar og ábendingar til framkvæmdastjórnar ESB og nú er komið að almenningi á EES svæðinu.
Öllum er heimilt að leggja orð í belg, hvort sem um sérfræðinga á heilbrigðissviði, löglærða, eða einfaldlega áhugasama ófaglærða er að ræða. Samráðsferlið er sett fram sem spurningalisti, formið eins og í skoðanakönnunum, en einnig býðst að leggja fram skriflegar ábendingar frá eigin brjósti. Meðal þess sem reifað er í spurningaforminu eru vangaveltur um hvernig nýta megi nýjustu tækni til að flýta matsferlum, með hvaða hætti væri hægt að tryggja greiðari aðgang að lyfjum, og hvernig hægt væri að tryggja öruggt framboð lyfja.
Svörum og tillögum er hægt að skila til og með 21. desember nk.