EMA og ECDC telja of snemmt að bjóða upp á fjórða skammt bóluefna

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu stofnananna

Það er mat Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) og Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC) að gefa megi einstaklingum 80 ára og eldri fjórða skammtinn (seinni örvunarskammt) af bóluefnunum Cominatry (Pfizer/BioNTech) og Spikevax (Moderna). Gögnin, sem liggja til grundvallar ráðleggingunni, sýna að meiri hætta er á alvarlegum COVID-19 sjúkdómi í þessum aldurshópi og að fjórði skammturinn veiti góða vörn.

Bóluefnin veita enn góða vörn og því ekki almenn þörf fyrir fjórða skammt

Bæði EMA og ECDC telja að á þessari stundu séu engar vísbendingar um að vörnin sem bóluefnin veita gegn alvarlegum COVID-19 sjúkdómi fari dvínandi hjá heilbrigðu fólki á aldrinum 60-79 ára. Því eru ekki nægileg gögn sem styðja notkun fjórða skammtsins hjá þessum hópi.

Það sama á við um hrausta einstaklinga yngri en 60 ára að mati EMA og ECDC. Enn sem komið er talið að engar vísbendingar sýni að vörn bóluefnanna gegn alvarlegum sjúkdómi fari dvínandi og þar af leiðandi sé ekki þörf fyrir fjórða skammtinn hjá hópnum.

Áfram fylgst með þróun COVID-19

EMA og ECDC sem og yfirvöld í hverju landi fyrir sig, munu áfram fylgjast náið með gögnum til að meta hvort mögulega sé aukin hætta á alvarlegum veikindum meðal bólusettra.

Nánari upplýsingar eru í frétt á vef EMA.

Síðast uppfært: 7. apríl 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat