Með lyfjalögum sem tóku gildi 1. janúar 2021 fylgdi það ákvæði um rekstur apóteka, að í hverju þeirra skyldu vera starfandi ekki færri en tveir lyfjafræðingar á almennum afgreiðslutímum, og á álagstímum þar fyrir utan.
Ennfremur að Lyfjastofnun gæti veitt undanþágu frá þessu ákvæði og heimilað að einungis einn lyfjafræðingur starfaði í apóteki, að fenginni umsókn þar um og að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði eru m.a. að umfang starfsemi sé lítið, eða að þannig hátti til að hætta geti verið á að starfsemi apóteks leggist niður, verði gerð ítrasta krafa um ekki færri en tvo lyfjafræðinga á almennum afgreiðslutímum. Almennur afgreiðslutími apóteka er að jafnaði frá kl. 10 til kl. 18 frá mánudegi til föstudags nema almenna frídaga, eins og skilgreint er í reglugerð 1340/2022.
Lyfjastofnun metur umfang
Ákvæðið um lítið umfang starfsemi sem forsendu fyrir undanþágu er ekki nánar útskýrt í lyfjalögum eða lögskýringargögnum. Er það því verkefni Lyfjastofnunar að leggja mat á þetta atriði. Lyfjastofnun fór þá leið á sínum tíma að setja reglur sem gæfu umsækjendum kost á að glöggva sig á viðmiðum, og leggja út frá þeim mat á álagi í viðkomandi apóteki.
Dómsúrskurður
Fyrr á þessu ári kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóma í málum Lyfja og heilsu gegn Lyfjastofnun sem vörðuðu mönnun apóteka. Niðurstaðan var í stórum dráttum sú að ekki væri sýnt fram á að túlka ætti ákvæði um mönnun rúmt eins og fyrirtækið setti fram, og því væri meginreglan að ekki skyldu vera færri en tveir lyfjafræðingar í hverju apóteki. Hins vegar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki skyldi styðjast við viðmiðunarreglur heldur leggja að öllu leyti sjálfstætt mat á hverja umsókn um undanþágu vegna mönnunar apóteka.
Breytt fyrirkomulag og uppfærð upplýsingasíða
Í ljósi niðurstöðu dómsins felldi Lyfjastofnun niður fyrrnefndar viðmiðunarreglur og eru þær ekki lengur lagðar til grundvallar við afgreiðslu umsókna um undanþágu frá mönnun apóteka. Frá þessu var greint í frétt á vef stofnunarinnar á sínum tíma. Upplýsingasíða um mönnun apóteka hefur verið uppfærð til samræmis við þetta.
Umsókn um undanþágu í gegnum Ísland.is
Þeir lyfsöluleyfishafar sem óska eftir undanþágu frá mönnunarkröfu lyfjalaga skulu héðan í frá sækja um á þar til gerðu rafrænu eyðublaði á Ísland.is, sem nálgast má í gegnum Mínar síður á vef Lyfjastofnunar.