Í dag, mánudaginn 16. mars 2020, tekur gildi nýtt fyrirkomulag hjá Lyfjastofnun við afgreiðslu á umsóknum um notkun undanþágulyfja (lyfja sem ekki hafa íslenskt markaðsleyfi) hjá heilbrigðisstofnunum, læknastofum og dýralæknum. Felur það í sér að fylla skal út eyðublað (Umsókn fyrir lyf án markaðsleyfis ) og senda það með tölvupósti á [email protected] í stað þess að fylla út undanþágulyfseðil á pappírsformi og senda hann með bréfpósti til Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun mun eftir sem áður taka á móti undanþágulyfseðlum á pappírsformi þegar aðstæður gera læknum ókleift að skrifa upp á rafræna undanþágulyfseðla.
Umsóknir í nýju verklagi verða afgreiddar rafrænt hjá Lyfjastofnun. Umsækjandi fær annaðhvort höfnun eða samþykki í tölvupósti ásamt rökstuðningi ákvörðunarinnar. Sé umsókn samþykkt sendir Lyfjastofnun samþykktina með tölvupósti á tilgreinda lyfjaheildsölu með umsækjanda í afriti. Í þeim tilvikum fær umsóknin einnig tilvísunarnúmer sem hægt er að vísa til ef þörf krefur.
Þetta nýja verklag á einungis við um heilbrigðisstofnanir, læknastofur og dýralækna. Ávísun undanþágulyfja til einstaklinga helst óbreytt.
Fyrirkomulag þetta hefur verið í undirbúningi hjá Lyfjastofnun um nokkra hríð en í ljósi aðstæðna í samfélaginu (COVID-19) hefur verið tekin sú ákvörðun að flýta upptöku þess. Sé nánari upplýsinga óskað má senda fyrirspurnir á [email protected].