Markaðsleyfishafi lyfsins Hoffmann-La Roche sendi 25. mars sl. í samráði við Lyfjastofnun Evrópu og Lyfjastofnun bréf til heilbrigðistarfsmanna til að upplýsa um hættu á alvarlegum aukaverkunum á húð.
Þær upplýsingar sem er mikilvægt að koma á framfæri eru eftirfarandi:
- Tilkynnt hefur verið um alvarlegar aukaverkanir á húð, þ.m.t. tilvik Stevens-Johnson heilkennis og húðþekjudrepsloss, hjá sjúklingum sem fengu meðferð með Tecentriq (atezolizumabi).
- Fylgjast á með sjúklingum með tilliti til gruns um alvarlegar aukaverkanir á húð og útiloka á aðrar orsakir. Við grun um alvarlegar aukaverkanir á húð á að gera hlé á meðferð með Tecentriq og vísa sjúklingum til sérfræðings í húðsjúkdómum til greiningar og meðferðar.
- Við staðfest Stevens-Johnson heilkenni eða húðþekjudrepslos og við hvaða 4. stigs útbrot/alvarlegar aukaverkanir á húð sem er, á að hætta meðferð með Tecentriq fyrir fullt og allt.
- Gæta skal varúðar þegar íhugað er að nota Tecentriq handa sjúklingum með sögu um alvarlegar eða lífshættulegar aukaverkanir á húð við meðferð með öðrum ónæmisörvandi krabbameinslyfjum.
Nánari upplýsingar er að finna í bréfinu og að auki má finna ítarlegar upplýsingar um Tecentriq í sérlyfjaskrá.
Tilkynning aukaverkana
Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist Tecentriq til Lyfjastofnunar.