Aukaverkanatilkynningar í september 2022

Tilkynningum fækkar enn miðað við undanfarna mánuði

Tilkynningum um aukaverkanir fækkaði til muna milli tveggja fyrstu mánaða þessa árs, enda var bólusetningum gegn COVID-19 þá að mestu lokið hjá flestum aldurshópum. Frá vordögum hefur fjöldi tilkynninga færst í horf sem er líkara því sem gerðist fyrir covid; þær hafa flesta þá mánuði verið á bilinu 20 til 30. Í lok september hófst fjórða umferð örvunarbólusetninga svo að eðlilegt væri ef aukaverkanatilkynningum fjölgaði aftur lítillega á næstkomandi mánuðum.

Tilkynningar í september - sundurliðun eftir bóluefnum

Í september bárust 14 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun. Af þeim tengdust 7 bóluefnum gegn COVID-19; 5 vegna Comirnaty frá BioNTech/Pfizer, 1 vegna Spikevax frá Moderna, 1 vegna bóluefnisins Jcovden frá Janssen, 1 vegna Vaxzevria frá AstraZeneca. Sjö tilkynninganna tengdust öðrum lyfjum.

Vakin er athygli á því að sundurgreindu tölurnar fyrir hvert bóluefni stemma ekki við samtöluna. Ástæða fyrir því er sú að ein tilkynningin sneri að tveimur bóluefnum, Jcovden og Spikevax.

Fjöldi tilkynninga í september eftir alvarleika

Tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun voru 4. Þrjár þeirra tengdust bóluefni gegn Covid-19, þær voru vegna Comirnaty frá BioNTech/Pfizer. Ein tengdist öðru lyfi.

Fjöldi tilkynninga eftir tilkynnendum

Í september voru 11 tilkynninganna frá notendum eða aðstandendum þeirra og 3 frá læknum. Ekki bárust tilkynningar frá öðrum hópum.

Rétt er að taka fram að um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun er að ræða. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar lyfjanotkunar, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi sé að ræða milli tilvikanna og lyfjanotkunarinnar.

Einnig ber að skoða fjölda tilkynninga í samhengi við fjölda bólusettra einstaklinga með einstaka bóluefni. Þær upplýsingar er að finna á covid.is.

Mikilvægt að tilkynna um aukaverkun lyfs

Enn skal ítrekað að aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar.

Heilbrigðisstarfsmanni sem hefur grun um alvarlega, nýja eða óvænta aukaverkun af notkun lyfs í störfum sínum, er skylt að tilkynna það til Lyfjastofnunar. Þessi skylda er bundin í lög frá í ársbyrjun 2021 og er að finna í 63. gr. lyfjalaga.

Allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs

Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar.

Í því sambandi má líka minna á að Lyfjastofnun Evrópu hefur hvatt sérstaklega til þess að aukaverkanir lyfja sem gefin hafa verið við COVID-19 sjúkdómnum, þar á meðal vegna bóluefna gegn COVID-19, verði tilkynntar, sem og aukaverkanir af lyfjanotkun vegna annarra sjúkdóma meðan á COVID-19 veikindum stendur.

Síðast uppfært: 13. október 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat