Tilkynningum um aukaverkanir fækkaði til muna milli tveggja fyrstu mánaða þessa árs, enda var grunnbólusetningum gegn COVID-19 þá að mestu lokið hjá flestum aldurshópum. Frá vordögum hefur fjöldi tilkynninga færst í horf sem er líkara því sem gerðist fyrir covid.
Í lok september hófst bólusetningarátak þegar boðið var upp á fjórða bóluefnaskammtinn fyrir tiltekna hópa og í kjölfar þess fjölgaði aukaverkanatilkynningum nokkuð á haustmánuðum. Milli mánaðanna október og nóvember má greina þessa fjölgun, úr 27 tilkynningum í 62, en fjöldinn er mjög langt frá því sem var þegar bólusetningar gegn COVID-19 stóðu sem hæst.
Enn var bólusett í allnokkrum mæli í desember, en tilkynningum fækkaði til muna frá því sem var í nóvember. -Engin tilkynning barst um aukaverkun vegna bóluefna gegn COVID-19 í desember.
Rétt er að geta þess að framvegis verða fréttir af tilkynntum aukaverkunum birtar á þriggja mánaða fresti, nema sérstakt tilefni verði til umfjöllunar.
Fjöldi tilkynninga í desember eftir alvarleika
Tilkynningar vegna gruns um alvarlega aukaverkun voru 5. Allar vegna annarra lyfja en bóluefna gegn COVID-19.
Fjöldi tilkynninga eftir tilkynnendum
Í desember voru 4 tilkynninganna frá notendum eða aðstandendum þeirra, 4 frá læknum, 6 frá lyfjafræðingum, og 1 frá öðrum heilbrigðisstarfsmanni.
Rétt er að taka fram að um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun er að ræða. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar lyfjanotkunar, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi sé að ræða milli tilvikanna og lyfjanotkunarinnar.
Mikilvægt að tilkynna um aukaverkun lyfs
Enn skal ítrekað að aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar.
Heilbrigðisstarfsmanni sem hefur grun um alvarlega, nýja eða óvænta aukaverkun af notkun lyfs í störfum sínum, er skylt að tilkynna það til Lyfjastofnunar. Þessi skylda er bundin í lög frá í ársbyrjun 2021, hana er að finna í 63. gr. lyfjalaga.
Allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs
Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar.