Ársskýrsla Lyfjastofnunar fyrir árið 2017 hefur verið gefin út.
Skipulagsbreytingar og nýtt skipurit
Gerð er grein fyrir skipulagsbreytingum sem kynntar voru í lok ársins, auk stefnu fyrir árin 2018-2021. Skipulagsbreytingarnar verða síðan innleiddar í áföngum á árinu 2018 en nýtt skipurit tók gildi 1. janúar s.l.
Rekstur Lyfjastofnunar
Fjallað um rekstur stofnunarinnar faglega jafnt sem fjárhagslega, erlent samstarf, rafræna miðlun upplýsinga um öryggis- og fræðsluefni, og reglubundna samanburðarúttekt á starfseminni á vegum lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu. Slík úttekt fer fram á fjögurra ára fresti.
Lyfjaskil - taktu til! átak sem bar árangur!
Þá er greint frá átaksverkefninu Lyfjaskil – taktu til! sem fram fór í mars 2017. Því var ætlað að hvetja til þess að ónotuðum lyfjum yrði skilað í apótek til eyðingar og þótti skila ágætum árangri. Einnig tók Lyfjastofnun þátt í evrópsku átaki til að auka vitund almennings um lyfjagát og fjölga þar með aukaverkanatilkynningum. Að sams konar verkefni var unnið með Landspítala-háskólasjúkrahúsi, vitundarvakningu um mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólk tilkynni aukaverkanir, sérstaklega þær sem alvarlegar teljast.
Aukaverkanatilkynningum fjölgaði um 58% á milli ára!
Vert er að geta þess aukaverkanatilkynningum til Lyfjastofnunar fjölgaði um 58% á milli áranna
2016 og 2017. Tilkynningum frá almenningi fjölgaði um 16%, frá læknum um 49,5%, og tilkynningar frá lyfjafræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki þrefölduðust. Frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi fjölgaði tilkynningum um alvaralegar aukaverkanir um 36% milli áranna 2016 og 2017. Þetta er mikilvægt þar sem aukaverkanatilkynningar hafa mikið vægi við að kortleggja áhættu og auka öryggi lyfja. Því virðist sem bæði heilbrigðisstarfsmenn og almenningur geri sér betur grein fyrir mikilvægi slíkra tilkynninga, og er það vel.
Í samræmi við umhverfisstefnu Lyfjastofnunar er ársskýrslan eingöngu gefin út rafrænt. Útlit skýrslunnar er unnið af auglýsingastofunni EnnEmm.