Sjá nýrri frétt um umboð til afhendingar lyfja (28. september 2020).
Að gefnu tilefni skal áréttað að lyfjafræðingur ber ábyrgð á afhendingu lyfja í apóteki samkvæmt 12. grein reglugerðar nr. 1266/2017 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Í 18. grein sömu reglugerðar er kveðið á um að lyf verði einungis afhent sjúklingi eða umboðsmanni hans.
Ákvörðun um umboð
Í febrúar sl. taldi Lyfjastofnun ástæðu til að skerpa á túlkun og framkvæmd 18. greinar reglugerðar um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja, þar sem brögð voru að því að lyf hefðu verið leyst út af öðrum en eiganda lyfjaávísunar, án heimildar hans. Því var tekin ákvörðun um breytt fyrirkomulag við afhendingu lyfja á þann veg, að ávallt skyldi kallað eftir skriflegu umboði þess sem sækti lyf í apótek fyrir annan en sjálfan sig.
Breytt fyrirkomulag hafði ekki gengið í gildi þegar COVID-19 faraldurinn barst til Íslands. Þegar svo var komið þótti ekki óhætt vegna smithættu að gera kröfu þess efnis að skrifleg umboð væru að skipta um hendur, og því var ákvörðuninni um breytt fyrirkomulag frestað. Krafa um skriflegt umboð hefur enn ekki gengið í gildi af fyrrgreindri ástæðu, en unnið er að rafrænni lausn hjá Embætti landlæknis sem reiknað er með að verði tilbúin þann 1. september nk.
Engu að síður hafa sum apótek tekið upp verklag þar sem skriflegs umboðs er óskað eða fólk minnt á að næst þurfi að koma með skriflegt umboð til að tryggja örugga afhendingu lyfja. Það verklag er til fyrirmyndar.
Árétting
Í umfjöllun Lyfjastofnunar um umboðsmál þessi hefur verið bent á að apótekum beri að tryggja örugga afhendingu lyfja til sjúklinga eða umboðsmanna þeirra lögum samkvæmt.
Þar sem nýlega kom enn upp mál þar sem lyf var leyst út af öðrum en eiganda lyfjaávísunar, án heimildar hans, vill Lyfjastofnun árétta enn á ný, að einungis er heimilt að afhenda lyfseðilsskyld lyf sjúklingi eða umboðsmanni hans, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1266/2017. Lyfjastofnun bendir jafnframt á að samkvæmt 12. gr. sömu reglugerðar ber lyfjafræðingur ábyrgð á afhendingu lyfja. Af þessu leiðir að lyfjafræðingur skal sannreyna lögmæti lyfjaafhendingar þegar lyf eru afhent umboðsmanni sjúklings.
Lyfjastofnun vill jafnframt ítreka þá túlkun stofnunarinnar að það sé til útfærslu hjá lyfsöluleyfishöfum og á ábyrgð viðkomandi lyfjafræðings með hvaða hætti lögmæti afhendingar lyfja til umboðsmanna sjúklinga er sannreynt.